Félagið Blue Issuer Designated Activity Company, dótturfélag Bain Capital, hefur nýtt sér áskriftarréttindi í bréfum Icelandair Group samkvæmt heimild sem veitt var 28. júlí í fyrra. Félagið skráir sig fyrir 1.414.773.617 hlutum á genginu 1,64.
Verðmæti viðskiptanna er um 2,32 milljarðar króna.
Icelandair náði í fyrrasumar samkomulagi við fjárfestingasjóðinn Bain Capital um kaup á 16,6% hlut í félaginu fyrir tæplega 8,1 milljarð króna. Meðal skilyrða kaupanna var að sjóðurinn fengi stjórnarmann í Icelandair Group.
Icelandair hefur aukið umsvifin samhliða vexti ferðaþjónustunnar. Hins vegar hefur hækkandi olíuverð aukið kostnað félagsins.
Fram kom í viðtali við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag að nýju MAX Boeing-þoturnar hefðu sparað félaginu tæplega 3 milljarða í eldsneytiskostnað á öðrum ársfjórðungi í ár.
Í hlutafjárútboði Icelandair Group í september 2020 voru gefin út áskriftarréttindi samhliða útgefnum hlutum í félaginu. Áskriftarréttindin veita rétt til að skrá sig fyrir hlutum í félaginu á gengi sem nemur útboðsgengi (1 ISK) að viðbættum 15% ársvöxtum.
Fjöldi hluta samsvarar 25% af fjölda hluta sem gefnir voru út í tengslum við hlutafjárútboðið og nýting áskriftarréttindanna skiptist niður í þrjú tímabil. Þann 4. ágúst nk. hefst þriðja og síðasta nýtingartímabilið og hafa handhafar áskriftarréttinda þá heimild til að skrá sig fyrir hlutum á genginu 1,30 per hlut.
Fyrirspurn var send til Icelandair um hversu margir nýttu sér áskriftarréttinn.
Svarið var að á fyrsta nýtingartímabili hafi hlutfallið verið 97,1% og á öðru nýtingartímabili 97,5%.
Nýtingin á þriðja nýtingartímabili liggi ekki fyrir enda sé það ekki hafið.