Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar segir að það sé búið að vera nóg að gera hjá fyrirtækinu til að mæta eftirspurn almennings fyrir verslunarmannahelgina. Hann segir vera mikinn mun núna miðað við sömu viku á síðasta ári.
Hann bendir á að það sé mikið að gera hjá veitingastöðum, skemmtistöðum og hótelum en að sjáanlegur samdráttur sé á sölu í Vínbúðinni miðað við á síðasta ári.
Hann segir ástæðu þess að minna er keypt af áfengi í Vínbúðinni vera að mikill fjöldi Íslendinga sé í útlöndum og að útlendingarnir kaupi frekar á börunum.
„Þetta er eins og í kórónuveirufaraldrinum, þá rauk áfengissala í Vínbúðinni upp en eins og við var að búast þá dregst hún saman núna. Það þýðir ekki að heildarsala á áfengi dragist saman.“
Hann segir þá að þó það sé búið að vera mikið að gera hjá Ölgerðinni fyrir verslunarmannahelgina sé ekki mikil hætt á að einhverjar vörur klárist.
„Við búum okkur bara undir verslunarmannahelgina og högum okkar innkaupum og framleiðslu í samræmi við það. Við bara bætum í þegar salan eykst, þá bara bruggum við meira.“
Hann bætir þó við að þrátt fyrir samdrátt á sölu í Vínbúðinni verði líklega meira að gera þar á morgun og laugardaginn heldur en í fyrra vegna Þjóðhátíðar og fleiri hátíða sem voru ekki haldnar þá.
„Ef líkur lætur þá verður mikið að gera í Vínbúðunum á morgun og hinn,“ segir Andri í lok samtalsins.