Eigandi Icelandair Hotels, fjárfestingarfélagið Berjaya Land Berhad, sem malasíski kaupsýslumaðurinn Vincent Tal leiðir, þarf að finna nýtt nafn á hótelkeðjuna á næstu vikum.
Í uppgjöri Icelandair fyrir þriðja ársfjórðung síðasta árs kemur fram að Berjaya hafi tólf mánuði til að hætta notkun Icelandair-vörumerkisins, eftir að hafa eignast hana að fullu í byrjun ágústmánaðar.
Má því reikna með að brátt verði tilkynnt um breytingu á nafni hótelkeðjunnar.
Í kjölfar kaupa Berjaya á 25% eftirstandandi hlut Icelandair Group í Icelandair Hotels á síðasta ári hóf hótelfélagið vinnu við breytingu á nafni og vörumerki hótelanna. Berjaya átti fyrir 75% hlut í félaginu, en lokagreiðsla fyrir þá sölu var greidd út í apríl árið 2020.