Ísfélag Vestmannaeyja hagnaðist um 40,6 milljónir bandaríkjadala í fyrra, eða sem svarar 5,3 milljörðum króna miðað við gengi dalsins gagnvart krónu í lok ársins. Félagið nær þrefaldaði hagnaðinn milli ára.
Þetta má lesa úr nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2021.
Félagið hagnaðist um 13,99 milljónir dala árið 2020, eða um 1,78 milljarða króna miðað við gengi dalsins gagnvart krónu í lok þess árs.
Lætur því nærri að Ísfélag Vestmannaeyja hafi þrefaldað hagnaðinn milli ára.
Skýrist helst af loðnuvertíðinni
Fram kemur í skýringum með ársreikningnum að loðnuvertíðin hafi haft sitt að segja um afkomuna.
„Rekstur félagsins gekkvel á árinu og jukust tekjur og afkoma mikið frá fyrra ári sem skýrist einna helst af loðnuvertíð á árinu 2021 en ekki voru stundaðar loðnuveiðar síðustu tvö ár þar á undan. EBITDA jókst um 27 milljónir USD og vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 20,4 milljónir USD. Á árinu fjárfesti félagið í uppsjávarskipunum Suðurey VE11 og Álsey VE2,“ segir í ársreikningnum.
Eignirnar um 40 milljarðar
Fram kemur í ársreikningnum að eignir félagsins hafi aukist úr 293,5 milljónum dala árið 2020 í 313,2 milljónir dala árið 2021, eða úr 37,3 milljörðum króna í 40,8 milljarða króna.
Veiking krónu gagnvart dalnum hefur áhrif á eignir umreiknaðar í krónur. Þannig kostaði dalurinn 127,21 krónu í árslok 2020 en 130,38 krónur í árslok 2021.
Eiginfjárhlutfallið jókst úr 51,1% í 58,4% milli ára.