Jón Birgir Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sölu og markaðsmála (CSO) Skagans 3X og Baader Íslands, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Þar segir að Jón Birgir þekki vel til Skagans 3X. „Hann stýrði farsælli uppbyggingu á nýju vörumerki og ásýnd félagsins þegar hann leiddi sölu og markaðsmál á miklu vaxtaskeiði fyrirtækisins á árunum 2016 til 2019.“
„Með ráðningu á Jóni Birgi erum við að styrkja en frekar stöðu okkar á íslenska markaðnum sem og þekkingu okkar á framúrskarandi hvítfisk og uppsjávarkerfum til hagsbóta fyrir viðskiptavina okkar,“ segir Robert Focke, framkvæmdastjóri Baader Fish. „Ástæðan fyrir því að hann er kominn aftur í teymið er að ég er sannfærður um að hann muni gera góða hluti fyrir viðskiptavini okkar og þær vörur sem seldar eru undir vörumerkjum Baader“.
Þýska fjölskyldufyrirtækið og fiskvinnsluvélaframleiðandinn Baader festi í febrúar kaup á 40% hlut í Skaganum 3X, en hafði áður keypt 60% hlut í lok 2020. Skaginn 3X sérhæfir sig í framleiðslu kæli-, frysti- og vinnslukerfum fyrir matvælaiðnaðinn og er leiðandi í uppsjávarvinnslukerfum.
„Það verður skemmtilegt verkefni að halda uppi þeim krafti sem íslenska teymið býr yfir og ná jafnframt fram þeim mikilvæga áreiðanleika sem Baader stendur fyrir. Ég er gríðarlega spenntur fyrir því að fá að vera í mikilvægu leiðtogahlutverki í þessu sterka félagi, enda tel ég þetta vera einingu sem mun leiða bransann til framtíðar þar sem ekkert annað íslenskt fyrirtæki er með fleiri sérhæfða starfsmenn sem einbeita sér eingöngu að sjávarútvegstækni,“ er haft eftir Jóni Birgi í tilkynningunni.