„Vitum ekkert hvað við erum að gera“

Aron Már Ólafsson, Hildur Skúladóttir, Erna María Björnsdóttir og Aron …
Aron Már Ólafsson, Hildur Skúladóttir, Erna María Björnsdóttir og Aron Can. Ljósmynd/Aðsend

Veitingastaðurinn Stund var opnaður á föstudag við frábærar móttökur en fjögurra daga birgðir seldust upp samdægurs. 

Þetta kemur fram í ViðskiptaMogganum sem fylgir Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.

Aron Már Ólafsson leikari og Aron Can tónlistarmaður opnuðu ásamt mökum sínum, Hildi Skúladóttur og Ernu Maríu Björnsdóttur, í síðustu viku veitingastaðinn Stund í Veru mathöll, sem til húsa er í Grósku.

„Við rétt náðum í skottið á birgjum fyrir fjögur á föstudaginn og svo seldum við allt upp í gær aftur og gátum bara keyrt út vöfflur. Þetta er búið að ganga vonum framar,“ segir Aron Már í samtali við ViðskiptaMogga.

Stökkva eða hrökkva

Staðurinn er hugsaður sem morgunverðarstaður þar sem viðskiptavinir geta gætt sér á heilsusamlegum morgunverðarskálum og þeytingum. Á kvöldin býður staðurinn upp á eftirrétti og kokteila. Aron segir að hugmyndin hafi kviknað á acai-stað í ferð þeirra til Montreal fyrir þremur árum.

„Við urðum ástfangin af skálunum þeirra. Við reyndum að finna út hvaða hráefni þau notuðu og hvaðan þau fengust en staðurinn vildi ekki segja okkur neitt. Þá kviknaði mikill áhugi, en það var fyrir þremur árum. Svo leið tíminn og ekkert gerðist,“ segir Aron.

Boltinn fór svo aftur að rúlla í febrúar þegar vinirnir fóru að skoða rými fyrir staðinn. Aron frétti að Björn Bragi væri að opna aðra mathöll og sló á þráðinn til hans.

„Hann segir við mig að það sé eiginlega ótrúlegt að ég sé að hringja því það sé bara eitt pláss eftir og það sé akkúrat hugsað fyrir svona stað. Þetta var annaðhvort að stökkva eða hrökkva og við ákváðum að stökkva. En við vitum ekkert hvað við erum að gera – höfum ekki hugmynd – en þetta svínvirkar,“ segir hann og hlær dátt.

Pissaði ekki í tólf tíma

Aron segir staðsetninguna frábæra en mörg hundruð manns vinna í Grósku og mörg þúsund manns fara þar um daglega.

Er álagið mikið?

„Já, ég er búinn að vera að segja öllum á hinum stöðunum hvað þetta hafi verið mikið álag. Það hrista allir hausinn og segja: „Velkominn í veitingabransann!“ Á föstudaginn var svo mikið að gera að ég fattaði ekki að pissa – Ég pissaði ekki í tólf tíma. Þetta er búið að vera mikil törn en ógeðslega gaman og ég elska hverja mínútu af þessu.“

Aron segir að þau séu búin að ráða starfsmenn en vilji vera sem mest á staðnum til að byrja með til þess að læra á reksturinn, verkaskiptinguna og hvað megi bæta.

„Það er bara eitt orð sem er mér efst í huga eftir þessa helgi og það er þakklæti. Ég er bara sjúklega spenntur fyrir komandi tímum.“

Meira í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK