Forsvarsmenn Landsbankans stefna á að arðsemi bankans muni aukast á síðari hluta ársins. Arðsemi á eigið fé hans var aðeins 4,6% á fyrri hluta ársins.
„Við erum að horfa á bankann til lengri tíma og erum með ákveðnar væntingar um ársuppgjörið þar sem við gerum ráð fyrir að það verði ekki frekari lækkanir á hlutabréfamörkuðum. Þá munum við skila 7-8% arðsemi á árinu [...]“ segir Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans í samtali um uppgjör bankans en hún er gestur Dagmála.
Bendir hún í viðtalinu á að uppgjör bankans á fyrri helmingi ársins litist mjög af lækkandi hlutabréfagengi Marel en bankinn á 3,5% óbeinan hlut í fyrirtækinu í gegnum fjárfestingu sína í Eyri Invest.
Bendir Lilja á að bankinn hafi verið að skila að meðaltali 7,5% arðsemi á eigið fé bankans hin síðustu ár. Mikilvægt sé að skoða hlutina yfir langt tímabil en ekki aðeins á einstaka fjórðunga.
Í viðtalinu ræðir Lilja Björk um stöðu Landsbankans, stöðu hagkerfisins og margt fleira.
Viðtalið í heild má nálgast hér: