Heimsmarkaðsverð á olíu er nú á svipuðum slóðum og fyrir innrás Rússa í Úkraínu en eldsneytisverð hérlendis hefur ekki lækkað í takt við þær lækkanir sem sjást á heimsmarkaði. Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, segir margvíslegar ástæður fyrir því.
„Við tökum stöðuna á hverjum degi og metum verðlagninguna, stundum oftar ef það eru miklar sveiflur á markaðinum. En það sem gerðist í þessum gríðarlegu hækkunum, sem urðu þegar átökin í Úkraínu brutust út, að þá hækkaði verð á olíu gríðarlega hratt. Það sem gerðist í framhaldinu hérna heima, alla vega hjá okkur, er að við stigum á bremsuna eins og við gátum og settum ekki allar okkar hækkanir út í verðlagið,“ segir Hinrik.
„Við hefðum þurft að hækka verðið meira ef við hefðum ætlað að halda í framlegðarkröfuna okkar. Þar af leiðandi má segja að lækkunin til baka hafi tekið lengri tíma, því við erum enn að keyra á lægri framlegð heldur en okkar áætlanir gera ráð fyrir.“
Eldsneytisverð á Íslandi var um 280-290 krónur þegar innrás Rússa hófst en er nú rúmlega 330 krónur. Spurður hvað skýri þennan mun svarar Hinrik því að áhrifaþættirnir séu margir; hátt gengi dollars, hærri fjármagnskostnaður og annar kostnaður spili þar meðal annars inn í. Einnig sé heimsmarkaðsverð á olíu um 10% hærra en það var í byrjun febrúar.
Inntur eftir því hvort hátt eldsneytisverð sé kjörumhverfi fyrir rekstur olíufélaga segir Hinrik að svo sé ekki. Þvert á móti sé það hagstæðara fyrir þau þegar heimsmarkaðsverð á olíu sé lágt.
„Að öllu leyti væri það hagstæðara fyrir okkur að hafa lágt olíuverð. Fjármagnsbindingin okkar væri minni. Einnig verslar fólk minna við okkur þegar bensínverð er hátt. Það dregur úr eftirspurn og þar af leiðandi hefur það áhrif á okkur. Við höfum engan hag af því að hafa hátt eldsneytisverð. Best fyrir okkur er að hafa stöðugt eldsneytisverð og stöðugt gengi og gott jafnvægi almennt á öllum markaðinum.