Skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka, sem fram fór í mars, er að vænta um mánaðamótin. Þetta staðfestir Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi í samtali við Morgunblaðið. Upphaflega var stefnt að því að skýrslunni yrði skilað til Alþingis í lok júní en sú áætlun miðaðist við það að öll gögn lægju fyrir í málinu en svo reyndist ekki vera.
Guðmundur sagði í viðtali við mbl.is í lok júní að skýrslunni myndi seinka en hann væri bjartsýnn á að tækist að skila skýrslunni til Alþingis fyrir verslunarmannahelgina.
„Þetta hefur verið umfangsmikið og eins og við allar okkar úttektir, þá þarf að vanda til verka. Það skiptir meira máli en að vinna þetta samkvæmt tímaáætlun. Við höfum þó reynt að hraða þessu eins og kostur er. Svona stjórnsýsluúttektir taka að jafnaði 6-10 mánuði hjá okkur þannig að við erum að vinna þetta mjög hratt,“ segir Guðmundur.
Í áðurnefndu viðtali talaði Guðmundur um að tímafrekt umsagnarferli, þar sem þeim aðilum sem skýrslan snýr að gefst kostur á að lesa skýrsluna og veita umsögn um efni hennar, væri ekki hafið. Spurður hvort það ferli sé nú hafið, svaraði Guðmundur því neitandi.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir að þar sem það liggi ekki endanlega fyrir hvenær skýrslunni verði skilað hafi ekki verið tekin ákvörðun af hálfu þingsins um það hvort efnt verði til sérstakra funda vegna hennar. Það hafi vissulega verið rætt í vor, en þá hafi verið búist við skýrslunni mun fyrr.
„Við fylgjumst vel með þessu þessa dagana til þess að átta okkur á því hvað sé skynsamlegt að gera. Á þessari stundu liggja ekki fyrir neinar ákvarðanir um þetta,“ segir Birgir. Inntur eftir því hvort skýrsla fjármálaeftirlitsins um söluna verði tekin til umræðu, segir Birgir að hann sé sannfærður um það að hún muni koma til umræðu á þinginu með einum eða öðrum hætti. Hún sé þó bæði að efni og formi ólík skýrslu Ríkisendurskoðunar sem sé skilað til Alþingis. Skýrslu fjármálaeftirlitsins sé hins vegar ekki skilað til þingsins og fari því ekki í sama formlega farveg og skýrsla Ríkisendurskoðunar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vildi ekki tjá sig um það hvernig rannsókn eftirlitsins miðaði né hvenær henni lyki.
Oddný Harðardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í forsætisnefnd, segir aðalatriðið að vandað sé til verka við vinnslu skýrslunnar. „Ef að það þarf lengri tíma, þá verður bara að hafa það,“ segir Oddný, innt eftir viðbrögðum við seinkun skýrslunnar.
„Við höfum ekki farið yfir það í þingflokknum hvernig við ætlum að snúa okkur ef þetta dregst á langinn,“ segir hún og bætir við að hópurinn hittist á fimmtudaginn. Vel megi vera að þingflokkurinn muni kalla eftir tafarlausum umræðum – það eigi eftir að koma í ljós.
Hún segir líklegt að skýrslan verði rædd um leið og hún komi út, hvort sem er á vettvangi þingsins eða annars staðar. „Ég held að alveg sama hvernig þetta snýst og á hvaða tíma skýrslan kemur, það verður umræða um hana í samfélaginu og í fjölmiðlum. Það held ég að sé aðalatriðið.“
„Það fer auðvitað eftir því hvað kemur fram í skýrslunni hversu aðkallandi verður að ræða hana.“