Alls voru 12.240 laus störf á íslenskum vinnumarkaði á öðrum ársfjórðungi 2022. Á sama tíma voru 229.148 störf mönnuð og hlutfall lausra starfa því 5,1 prósent.
Þetta er hæsta ársfjórðungslega mæling á hlutfalli lausra starfa frá fyrsta ársfjórðungi 2019 þegar starfaskráning Hagstofunnar hófst.
Eftirspurn var mest eftir starfsfólki í hótel- og veitingarekstri, í fiskeldi og hjá sveitarfélögunum.
Hlutfall lausra starfa var hæst í atvinnugreinabálkum G-I, eða 9,2 prósent. Það eru heildsala og verslun, samgöngur og geymslusvæði, rekstur veitinga- og gististaða.
Í atvinnugreinabálki A, landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar, var hlutfall lausra starfa 8,8 prósent og 8,2 prósent í flokkum M-N, sem taka til ýmissar sérhæfðar þjónustu þar sem megnið af auglýstum störfum tengdust gæslu, þrifum og ferðaþjónustu.
Hlutfall lausra starfa í einkennandi greinum ferðaþjónustu var 8,1 prósent.
Samanburður við annan ársfjórðung 2021 sýnir að fjöldi lausra starfa jókst um 3.200 störf á milli ára, fjöldi mannaðra starfa jókst um rúmlega 21.700 og hlutfall lausra starfa um 0,9 prósentustig.