Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, keypti í dag bréf í Kviku banka fyrir tæpar 70 milljónir króna. Um er að ræða nýtingu áskriftaréttinda sem Hannes Frímann á hjá bankanum.
Bréfin eru keypt á genginu 7,7 kr. á hlut og kaupir Hannes Frímann níu milljónir hluta. Gengi bréfa í Kviku var við lok markaða í dag 21,8 kr. á hlut og lækkaði um 2,2%. Kvika banki birti í gær uppgjör sitt fyrir fyrri helming ársins þar sem afkomuspá bankans var uppfærð.
Hannes Frímann hefur starfað hjá Kviku frá árinu 2012, lengst af sem forstjóri Virðingar og Auðar Capital. Fyrir þann tíma var Hannes framkvæmdastjóri og einn stofnenda Tinda verðbréfa og einnig aðstoðarframkvæmdastjóri fjárstýringar og markaðsviðskipta hjá Arion banka og Kaupþingi.