Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, tapaði 72 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 134 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra.
Ljósleiðarinn ehf. er fjarskiptafélag á heildsölumarkaði en hlutverk fyrirtækisins er samkvæmt tilkynningu að stuðla að heilbrigðri samkeppni á fjarskiptamarkaði með því að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgang að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti.
Eignir fyrirtækisins hækkuðu á tímabilinu. Þær nema nú 28,3 milljörðum króna en voru 27,8 milljarðar á sama tíma í fyrra.
Eigið fé félagsins er nú 11,3 milljarðar en var tæplega 11,4 milljarðar á sama tíma á síðasta ári.
Eiginfjárhlutfall Ljósleiðarans er nú 37,1% en var 38,5% í lok árs 2021.
Tekjur félagsins á tímabilinu námu 1,8 milljarði króna en þær voru 1,6 milljarðar á sama tíma í fyrra, sem er 12% aukning milli tímabila.
Í tilkynningu frá félaginu segir að þótt rekstur Ljósleiðarans á fyrri hluta ársins hafi skilað meiri framlegð og auknum rekstrarhagnaði en á sama tímabili 2021 hafi aukinn fjármagnskostnaður þau áhrif að heildarniðurstaða fyrir fyrri helmings ársins er neikvæð.
Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segist í tilkynningunni vera ánægður með 12% tekjuvöxt milli ára og samsvarandi vöxt í framlegð rekstursins (EBITDA) þótt heildarniðurstaðan eftir sex mánuði hafi verið neikvæð um 71,7 milljónir króna.
„Eins og hjá mörgum öðrum í samfélaginu hefur aukin verðbólga ásamt hækkandi vöxtum á fyrri hluta ársins mikil áhrif á endalega niðurstöðu rekstrar,“ segir Erling Freyr. „Við höfum þegar stigið mikilvæg skref til að lækka fjármagnskostnað, nú síðast með útgáfu og skráningu grænna skuldabréfa á fyrri hluta ársins.“
Hann segir að gangi áform fyrirtækisins um hlutafjáraukningu eftir verði fjármagn nýtt jöfnum höndum til að greiða upp óhagstæðari lán og til fjárfestinga í tengslum við uppbyggingu nýs landshrings fjarskipta.