Ellert Hlöðversson hefur verið ráðinn forstöðumaður nýrrar deildar Verðbréfamiðlunar hjá Íslandsbanka. Samhliða því hafa Verðbréfamiðlun og Verðbréfaráðgjöf Íslandsbanka verið sameinaðar í eina deild með það að markmiði að styrkja enn frekar stöðu bankans í verðbréfaviðskiptum að því er segir í tilkynningu frá bankanum. Ingvar Arnarson, sem gegnt hefur stöðu forstöðumanns Verðbréfamiðlunar, verður áfram hluti af sameinuðu teymi.
Ellert Hlöðversson starfaði áður sem verkefnastjóri í Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann hefur m.a. leitt útboð og skráningu fjölda fyrirtækja í kauphöll og komið að flestum útgáfum fyrirtækjaskuldabréfa sem bankinn hefur haft umsjón með á undanförnum árum. Ellert er með M.Sc.-próf í verkfræði frá Háskóla Íslands og hefur starfað hjá Íslandsbanka í 12 ár.