Stórir bandarískir bankar á borð við JP Morgan Chase & Co og Bank of America eiga samtals yfir höfði sér yfir eins milljarðs dala stjórnvaldssekt, eða um 140 milljarða króna, vegna ósamþykktrar notkunar starfsmanna á skilaboðakerfum, meðal annars í gegnum tölvupósta og öpp á borð við WhatsApp.
Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna hóf rannsókn á meðferð banka á gögnum í tengslum við málið í fyrra, að sögn Reuters.
JP Morgan Chase & Co var í fyrra sektað um 200 milljónir dala fyrir að geyma ekki þau samskipti sem starfsmenn eiga í gegnum farsíma, skilaboðakerfi og tölvupósta. JP Morgan viðurkenndi að hafa brotið með þessu öryggislög.
Morgan Stanley hefur sömuleiðis samþykkt að greiða 125 milljónir dala í sekt til verðbréfaeftirlitsins.
Bank of America hefur eyrnamerkt um 200 milljónir dala fyrir annan ársfjórðung vegna málssókna í tengslum við ósamþykkta skilaboðanotkun starfsmanna sinna.