Orkuveita Reykjavíkur tapaði rúmlega 1,8 milljarði á öðrum ársfjórðungi þessa árs, en til samanburðar var 2,9 milljarða hagnaður af starfseminni á sama tíma í fyrra. Orkuveitan hagnaðist hins vegar um 6,8 milljarða á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og er því heildarafkoma ársins á fyrstu sex mánuðum ársins um 5 milljarðar. Þetta má sjá í nýútgefnum árshlutareikningi Orkuveitunnar.
Helgast þessi lakari afkoma aðallega af breytingum á álverði og bókhaldslegum áhrifum af álvörnum félagsins, en almenn rekstrarafkoma félagsins var mjög sambærileg á milli ára.
Í tilkynningu vegna uppgjörsins segir að ýmis verðbólguáhrif sjáist í uppgjöri samstæðunnar, en auk móðurfélagsins OR eru innan samstæðunnar Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinnar og Carbfix. Meðal áhrifa eru hærri fjármagnskostnaður og þá hefur hærra verð á innfluttum aðföngum og verktakakostnaði aukið viðhaldskostnað og leitt til hærri fjárfestinga.
Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði (EBITDA) nam á öðrum ársfjórðungi 17,9 milljarði og er á pari við rekstrarhagnaðinn á sama tíma í fyrra. Þegar horft er til fyrstu sex mánaða ársins er rekstrarhagnaðurinn 16,9 milljarður, eða um milljarði hærri en á sama tíma í fyrra.
Vaxtagjöld hækka hins vegar umtalsvert, eða um rúmlega 1,2 milljarða á öðrum ársfjórðungi og samtals um 2,3 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins. Til viðbótar við það tekur OR fram að „breytingar á stærðum tengdum álverði“ valdi einnig auknum tekjusamdrætti sem sé um 1,5 milljarðar á fyrstu sex mánuðum ársins, en samanlagt lækkar þetta hagnað félagsins um 3,8 milljarða á fyrri hluta ársins miðað við fyrri hluta síðasta árs. Álverð á heimsmarkaði hefur lækkað nokkuð það sem af er ári, en félagið er með álvarnir fyrir um 90% af raforku sem seld er til álvera að sögn fjármálastjóra félagsins.
Í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur jafnframt fram að ofsaveður í febrúar hafi ollið þó nokkrum kostnaði vegna tjóns á raflínum og rafbúnaði í veitu- og virkjanarekstri. Þá stóð mjög lágt í lónum vatnsaflsvirkjana og verð á aðkeyptu rafmagni til endursölu á almennum markaði hækkaði tímabundið.
Handbært fé félagsins hefur lækkað nokkuð á árinu og var í lok annars ársfjórðungs 7,6 milljarðar, en hafði verið um þremur milljörðum hærra um áramót. Helgast það af því að langvinnu dómsmáli OR gegn þrotabúi Glitnis vegna gjaldmiðlasamninga frá árinu 2008 lauk og var félaginu gert að greiða Glitni liðlega þrjá milljarða. Var sú upphæð færð til gjalda í fyrra, en greidd á þessu ári og lækkar því handbært fé um þá tölu.
Í tilkynningunni er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, að nú standi yfir óvenjulegir tímar í rekstri. „Yfir standa miklar fjárfestingar, einkum í veitukerfunum, og það er mikill þrýstingur á að halda þeim áfram, ekki síst vegna áherslna sveitarfélaga og ríkisins á aukið framboð íbúðarhúsnæðis. Af þessari ástæðu er verktakamarkaður spenntur og lægstu tilboð í verk hjá okkur stundum tugum prósenta yfir kostnaðaráætlunum. Á sama tíma hafa vextir hækkað mjög skarpt sem ætti, að öðru jöfnu, að letja okkur til fjárfestinga.“