Breska kvikmyndahúsakeðjan Cineworld hefur staðfest að hún íhugi að sækja um gjaldþrotaskipti í Bandaríkjunum.
Miklir erfiðleikar steðja að keðjunni, sem glímir við skuldir upp á 5 miljarða dala, eða um 700 milljarða íslenskra króna.
Fyrirtækið, sem einnig á keðjuna Picturehouse í Bretlandi, segist vera að kanna möguleika á því hvernig hægt er að endurskipuleggja reksturinn, að sögn BBC.
Hlutabréf í Cineworld hækkuðu á nýjan leik í morgun eftir að hafa hrapað um 60 prósent á föstudag.
Starfsmenn fyrirtækisins eru yfir 28 þúsund víðs vegar um heim.
Eins og önnur kvikmyndahús fór Cineworld illa út úr kórónuveirufaraldrinum. Fyrirtækið hafði vonast eftir því að nýjar myndir á borð við Top Gun: Maverick, nýjustu Bond-myndina og Thor: Love and Thunder, myndu rífa aftur upp aðsóknina.
Kvikmyndahúsagestir hafa aftur á móti verið færri en búist var við, að sögn Cineworld, sem kennir „takmörkuðum“ útgáfum kvikmynda um.
Cineworld er með starfsemi í tíu löndum, þar á meðal Bretlandi, Bandaríkjunum, Póllandi og Ísrael.