Sigurður Orri Guðmundsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Neckcare holding ehf., en hann hefur undanfarið setið í stjórn félagsins. Sigurður Orri tekur við sem framkvæmdastjóri af Þorsteini Geirssyni sem mun áfram starfa hjá félaginu sem nýsköpunarstjóri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Neckcare er nýsköpunarfyrirtæki í heilbrigðisrækni og er á þriðja starfsári sínu. Félagið þróar og selur hugbúnað og vélbúna sem gefur hlutlægt mat á hálsáverkum og verkjum í hálsi. Rannsóknir sem vinna félagsins byggir á ná aftur til ársins 2003, en það var dr. Eyþór Kristjánsson sjúkraþjálfari sem þróaði og sannprófaði nýtt klínískt matspróf á hreyfistjórn hálsins.
Fyrr á árinu var greint frá því að félagið hefði tryggt sér einn milljarð í fjármögnun frá framtakssjóðinum Iðunni, auk nýrra fjárfesta og þeirra sem fyrir höfðu verið.
Sigurður Orri hefur starfað erlendis undanfarið og var búsettur í Kaupmannahöfn frá 2012-2019 og í Bandaríkjunum frá 2019-2021. Hann var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá danska hugbúnaðarfyrirtækinu Siteimprove, fyrst í Evrópu og síðar í Bandaríkjunum. Þá var hann framkvæmdastjóri viðskiptasviðs hjá danska félaginu Airtame og bar ábyrgð á sölu, þjónustu og markaðssetningu félagsins á alþjóðavísu. Sigurður Orri er fjármálahagfræðingur með M.Sc. gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla.