Útlit er fyrir lélega uppskeru hjá kaffibændum í Brasilíu og er þetta annað árið í röð sem óhagfelld veðurskilyrði bitna á brasilískum kaffilandbúnaði.
Að sögn Wall Street Journal hefur veðurfar á kaffiræktarsvæðum Brasilíu verið óvenjuslæmt það sem af er þessu ári. Fyrst plöguðu þurrkar kaffiræktendur og í kjölfarið kom kuldakast sem skemmdi kaffiplönturnar enn frekar. Sjá sumir bændur fram á að uppskeran af arabica-baunum verði helmingi minni en í venjulegu árferði.
Brasilía er langstærsti kaffiframleiðandi heims og framleiddi árið 2019 um 5,7 milljarða punda af kaffi, en þar á eftir komu Víetnam með 3,6 milljarða punda og Kólumbía með tæplega 1,8 milljarða punda. Greinir WSJ frá að veðurskilyrði hafi líka verið óhagfelld í Kólumbíu og því von á lakri uppskeru þar.
Má leiða líkum að því að slæm uppskera í Brasilíu hafi hækkandi áhrif á kaffiverð en uppskerubresturinn í fyrra varð til þess að framvirkir kaupsamningar á kaffibaunum nærri tvöfölduðust í verði.
Matsfyrirtækið Fitch spáir þó að uppskerubrestur í Brasilíu annað árið í röð muni ekki stuðla að frekari hækkunum en hins vegar koma í veg fyrir að verðhækkun kaffibauna gangi til baka.