Flugfélagið Play mun ráða í kringum 50 flugmenn og 150 flugþjóna fyrir næsta vor. Þetta kemur fram í svörum við spurningum blaðamanns sem Birgir Jónsson, forstjóri Play, svaraði eftir árshlutauppgjör flugfélagsins í morgun. Á fundinum kom einnig fram að flugfélagið stefni á að hafa 10 flugvélar í rekstri fyrir næsta vor.
Í gær kom fram í tilkynningu að flugfélagið myndi ráða 200 starfsmenn fyrir næsta vor.
Stefnt er að því að rekstrarafkoma síðari hluta ársins verði jákvæð en tap Play á öðrum ársfjórðungi var um það bil tveir milljarðar íslenskra króna.
Hvað varðar áhrif verðbólgu hér á landi og erlendis á viðskiptavini Play var Birgir frekar jákvæður í svörum. Hann segir að fólk muni frekar fljúga með Play í erfiðu fjárhagslegu umhverfi. Hann segir þó að verðbólga væri slæm í stóra samhenginu.
„Verðbólga er slæm fyrir alla. Sumt fólk mun ekki ferðast vegna verðbólgunnar en annað mun gera það. Þau sem ákveða að ferðast eru líklegri til þess að velja sér ódýrustu leiðina frá a til b.“
Þannig telur Birgir að Play muni vera líklegra til að ná til þeirra farþega sem eru að reyna að ferðast ódýrt.