„Allar ákvarðanir eru háðar óvissu og það á einnig við setningu stýrivaxta. Það eru alltaf líkur á því að ákvörðunin sé röng þegar litið er baksýnisspegillinn,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir svaraði spurningu um hvort að mögulegt sé að áhrif fyrri stýrivaxtahækanna í vor og sumar, hvor um 100 punkta, eigi eftir að koma fram að fullu og því 75 punkta hækkun til viðbótar vel í lagt.
„Þegar við tökum ákvarðanir um vaxtahækkanir veltum við alltaf fyrir okkur hættunni um að gera of mikið á of skömmum tíma. Það tekur tíma fyrir þær að hafa áhrif og gögnin að koma fram þannig að við höfum vissulega áhyggjur af því,“ segir hann.
„En að sama skapi er einnig töluverð áhætta fólgin í því að gera of lítið alltof seint. Það verður sífellt kostnaðarsamara að ná niður verðbólgu eftir því sem hún fær lengri tíma til þess að grassera og grafa undan trúverðugleika peningastefnunnar.“
Fram kom í nýútgefnum Peningamálum að einkaneysla hefur aukist verulega á Íslandi að undanförnu. Spurður hvort að mikil kortavelta einstaklinga, ekki síst erlendis, valdi því að vöruskiptajöfnuður sé orðinn neikvæður, segir Ásgeir það ekki liggja fyrir.
„Við eigum eftir að sjá það. Það liggur fyrir að þegar faraldurinn stóð yfir gat fólk ekki eytt peningunum sínum - það var lokað inni á heimilum sínum. Við sáum gríðarlegan sparnað myndast, innistæður í banka. Það er ekkert óeðlilegt við að fólk eyði peningum núna; Fari til útlanda og kaupi sér nýjan bíl og svo framvegis.
Spurningin er hvað gerist síðan, þegar fólk er búið að eyða þessum aukasparnaði? Við vitum ekki hvor að einkaneysla muni halda svona áfram eða hvort muni hægja á sér þegar kemur fram á veturinn.“
Ásgeir segir krónuna „á tiltölulega góðum stað“.
„Það hefur orðið svo mikið misgengi á milli gjaldmiðla. Evran hefur veikst svo svakalega gagnvart bandaríkjadal. Gengi dollara er hærra gagnvart krónunni en áður sem leiðir til þess að upplifun bandarískra túrista af íslensku verðlagi er allt önnur en ferðamanna frá Evrópu.,“ segir hann.
Hann telur íslensku krónuna hvorki of hátt né of lágt skráð ef miðað er viðskiptavegið gengi krónunnar.
„Það hefur gengið vel í helstu útflutningsgreinum hin síðari misseri sem hefur staðið undir þessari miklu eyðslu erlendis, án þess að krónan gefi eftir.“