Alltaf hætta á rangri ákvörðun

Ásgeir Jónsson seðlabakastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.
Ásgeir Jónsson seðlabakastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. mbl.is/Hákon

„Allar ákvarðanir eru háðar óvissu og það á einnig við setningu stýrivaxta. Það eru alltaf lík­ur á því að ákvörðunin sé röng þegar litið er baksýnisspegillinn,“ seg­ir Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri. 

Ásgeir svaraði spurn­ingu um hvort að mögu­legt sé að áhrif fyrri stýri­vaxta­hæk­anna í vor og sum­ar, hvor um 100 punkta, eigi eft­ir að koma fram að fullu og því 75 punkta hækk­un til viðbót­ar vel í lagt. 

„Þegar við tök­um ákv­arðanir um vaxta­hækk­an­ir velt­um við alltaf fyr­ir okk­ur hætt­unni um að gera of mikið á of skömm­um tíma. Það tek­ur tíma fyr­ir þær að hafa áhrif og gögn­in að koma fram þannig að við höf­um vissu­lega áhyggj­ur af því,“ segir hann.

„En að sama skapi er einnig töluverð áhætta fólgin í því að gera of lítið alltof seint. Það verður sífellt kostnaðarsamara að ná niður verðbólgu eftir því sem hún fær lengri tíma til þess að grassera og grafa undan trúverðugleika peningastefnunnar.“

Gat ekki eytt peningunum sínum

Fram kom í ný­út­gefn­um Pen­inga­mál­um að einka­neysla hef­ur auk­ist veru­lega á Íslandi að und­an­förnu. Spurður hvort að mik­il korta­velta ein­stak­linga, ekki síst er­lend­is, valdi því að vöru­skipta­jöfnuður sé orðinn nei­kvæður, seg­ir Ásgeir það ekki liggja fyr­ir. 

„Við eig­um eft­ir að sjá það. Það ligg­ur fyr­ir að þegar far­ald­ur­inn stóð yfir gat fólk ekki eytt pen­ing­un­um sín­um - það var lokað inni á heim­il­um sín­um. Við sáum gríðarleg­an sparnað mynd­ast, inni­stæður í banka. Það er ekk­ert óeðli­legt við að fólk eyði pen­ing­um núna; Fari til út­landa og kaupi sér nýj­an bíl og svo fram­veg­is.

Spurn­ing­in er hvað ger­ist síðan, þegar fólk er búið að eyða þessum aukasparnaði? Við vit­um ekki hvor að einka­neysla muni halda svona áfram eða hvort muni hægja á sér þegar kemur fram á veturinn.“

Misgengi á milli gjaldmiðla

Ásgeir seg­ir krón­una „á til­tölu­lega góðum stað“. 

„Það hef­ur orðið svo mikið mis­gengi á milli gjald­miðla. Evr­an hef­ur veikst svo svaka­lega gagn­vart banda­ríkja­dal. Gengi doll­ara er hærra gagn­vart krón­unni en áður sem leiðir til þess að upplifun banda­rísk­ra túrist­a af íslensku verðlagi er allt önnur en ferðamanna frá Evrópu.,“ seg­ir hann.

Hann tel­ur ís­lensku krón­una hvorki of hátt né of lágt skráð ef miðað er viðskiptavegið gengi krónunnar. 

„Það hefur gengið vel í helstu út­flutn­ings­grein­um hin síðari misseri sem hef­ur staðið und­ir þess­ari miklu eyðslu er­lend­is, án þess að krón­an gefi eft­ir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK