Búð á öllum sviðum listarinnar

Kjartan Holm, Sindri Már, Lilja og Inga, ásamt hundinum Atlasi. …
Kjartan Holm, Sindri Már, Lilja og Inga, ásamt hundinum Atlasi. Jónsi og Sigurrós hanna síðan lyktina. mbl.is/Ari Páll

Við Fischersund í Reykjavík er lítið og notalegt hús þar sem samnefnd verslun er til húsa. Búðin, sem fagnar sínu fimm ára afmæli á árinu, er fjölskylduverkefni þar sem systkinin fjögur, Jón Þór, betur þekktur sem Jónsi í Sigur Rós, Ingibjörg, Lilja og Sigurrós Elín, hanna og selja hina ýmsu ilmi og vörur sem allar eru unnar úr aðföngum íslenskrar náttúru.

Jónsi og Sigurrós sjá að mestu leyti um hönnun og framleiðslu ilmanna en miðjusysturnar, Inga og Lilja, eru listrænt teymi búðarinnar.

Menn þeirra, svilarnir og tónskáldin Sindri Már Sigfússon og Kjartan Holm, eru einnig mikilvægir liður í verkefninu þar sem þeir semja meðal annars tónlist búðarinnar í samstarfi við Jónsa. Foreldrarnir taka einnig virkan þátt þar sem pabbinn, Birgir, sér um að vinna tinið og gera reykelsi og mamman, Guðrún, annast innpökkun og er þeim andlegur stuðningur. Er því um að ræða verkefni þar sem allar hendur eru uppi á dekki, að sögn Lilju.

Frá búðinni. Upprunalega var um að ræða vinnustofu Jónsa og …
Frá búðinni. Upprunalega var um að ræða vinnustofu Jónsa og er lingið veggnum hljóðeinangrandi. mbl.is/Ari Páll

„Ilmlykill“ frumsýndur á morgun

Mikið er um að vera um þessar mundir í búðinni en nýverið opnuðu þau vöruhús í Bandaríkjunum sökum mikillar eftirspurnar þar í landi, auk þess sem breiðskífa með tónlist búðarinnar lítur dagsins ljós um miðjan september.

Á morgun verður síðan sérstakur viðburður í búðinni í samstarfi við sænska sendiráðið þar sem frumsýndur verður svokallaður „ilmlykill að íslenskum heimilum“, í tilefni 250 ára afmælis vísindaleiðangurs Daniels Solanders hingað til lands árið 1772.

Blaðamaður hlaut góðar viðtökur þegar hann bar að garði í Fischersundinu og þrátt fyrir að húsið sé ekki stórt í sniðum iðaði það af lífi. Sjá mátti túrista leidda í gegn um nokkurs konar ilmupplifun búðarinnar, þar sem hverri lykt var gefin myndræn lýsing. Ekki leið á löngu þar til miðjusystirin, Lilja, hafði leitt blaðamann sömu leið.

Lilja Birgisdóttir kveikir hér í kamínu búðarinnar að lokinni ilmupplifun.
Lilja Birgisdóttir kveikir hér í kamínu búðarinnar að lokinni ilmupplifun. mbl.is/Ari Páll

Lykt innblásin af æskuminningunum

„Reykur í loftinu og tjargaðir símastaurar. Anísfræ og svartur pipar fylgja nýslegnu grasi og tóbakslaufum. Dauð blóm hneigja sig. Í golunni kitlar kvenleg lindufuran vitin,“ er lýsingin á vinsælasta ilmi Fischersunds, sem unninn er út frá minningum Jónsa af höfninni í Reykjavík þar sem faðir hans, Birgir, vann við að gera við skip.

Þar á undan var léttari lykt, innblásin af æskuminningum þeirra systkina af uppeldi sínu í Mosfellsbæ.

Lyktirnar er gerðar úr hinum ýmsu aðföngum sem finna má …
Lyktirnar er gerðar úr hinum ýmsu aðföngum sem finna má í íslenskri náttúru. mbl.is/Ari Páll

Áfram var haldið og að ilmi sem hannaður var í samstarfi við 66°Norður: Útilykt.

„Við Íslendingar erum voðalega upptekin af veðrinu, erum alltaf að skoða veðurspána og tala saman um veðrið og eigum svo mikið af orðum til þess að skýra þennan litla mismun á öllum veðurstigum sem við eigum.

Við eigum meira að segja orð til þess að lýsa lyktinni af fötunum og hárinu á þér þegar þú ert búinn að vera lengi úti,“ segir Lilja og bætir við að þennan ilm hafi fjölskyldan unnið í sameiningu. „Við eigum svo margar sameiginlegar minningar af því að vera úti í náttúrunni.“

Ilmorgel. Vísar til „perfumer's organ“, sem þekkist í ilmgerðum víða …
Ilmorgel. Vísar til „perfumer's organ“, sem þekkist í ilmgerðum víða um heim. mbl.is/Ari Páll

Vöruhús erlendis en fjölskyldubragurinn ekki á förum

Lilja segir aðspurð að vel gangi hjá búðinni. Ný lykt verður kynnt í haust, en hingað til hefur komið um það bil ein lykt á ári.

„Það gengur bara mjög vel. Íslendingar hafa tekið okkur rosalega vel og sömuleiðis erlent ferðafólk og fólk erlendis,“ segir Lilja en þau hafa lengi starfrækt vefverslun og sent víða um heim. „Það er mikill áhugi, sérstaklega frá Bandaríkjunum, þannig að við ætlum að fara að leggja meiri áherslu á þann markað.“

Þau hafa þegar gert samning við Ísafold, sem svo skemmtilega vill til að er rekið af æskuvinum Kjartans. „Þannig að við erum að vinna með Íslendingum í Bandaríkjunum,“ segir Lilja og hlær. Ljóst er að þrátt fyrir að þau færi nú út kvíarnar er fjölskyldubragurinn ekki á förum.

Hin fyrsta smáskífa af væntanlegri plötu búðarinnar er þegar komin …
Hin fyrsta smáskífa af væntanlegri plötu búðarinnar er þegar komin út. Lögin heita eftir aðföngum ilmgerðarinnar.

Hljómplata væntanleg út frá aðföngum ilmgerðarinnar

Platan Sounds of Fischer Vol. 1 er væntanleg hinn 16. september. Um er að ræða eins konar safnplötu laga sem Kjartan og Sindri hafa samið í samstarfi við Jónsa og Alex Somers.

„Þetta eru lög sem við höfum gert bara frá byrjun. Lög sem hafa verið að koma út sem vínilplötur einungis til sölu hér,“ segir Sindri, betur þekktur sem Sin Fang. Kjartan tekur undir. „Okkur fannst kominn tími til að þetta væri aðgengilegt á netinu líka,“ segir hann en nær allar upprunalegu vínilplöturnar eru uppseldar.

Fyrsta smáskífa plötunnar; Beitilyng, er þegar komin út og er von á nýrri; Birki, von bráðar. Öll lögin bera nöfn í takt við aðföng ilmgerðarinnar.

mbl.is/Ari Páll

Fjöldi fyrirspurna

„Þetta er allt mjög organískt,“ segir Sindri og bætir við að hljóðheimurinn sé það líka, en þeir ferðuðust um landið í fyrra að taka upp umhverfishljóð og koma á tónlistarvænt form.

„Við bjuggum til trommur til dæmis með því að taka okkur upp að henda steinum og slá í mosa. Bjuggum til takta úr því.“

Svilarnir kveða verkefnið uppsprottið sökum fjölda fyrirspurna frá viðskiptavinum búðarinnar, sem ekki náðu að kaupa vínilinn en vilja geta notið laganna samhliða vörunum. Nú geti fólk um heim allan notið laganna.

„Og við,“ segir Kjartan og hlær. „Við eigum ekkert af þessum plötum.“

Fyrsta smáskífan:

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK