Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verðbólga muni áfram hækka núna á þriðja og fjórða ársfjórðungi og fara hæst upp í 10,8% fyrir lok ársins áður en hún byrji að hjaðna á næsta ári. Spáir bankinn að meðalverðbólga næsta árs verði um 6,7% og að verðbólgan fari ekki undir 4% fyrr en í byrjun árs 2024.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju hefti Peningamála bankans sem kom út í dag samhliða vaxtaákvörðun bankans, en stýrivextir voru hækkaðir um 0,75 prósentur.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, fór yfir efnahagshorfur á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun og sagði hann þar að verðbólguhorfur væru enn á ný að versna frá fyrri spá bankans sem kom út í maí.
Þórarinn benti á að undanfarið hefði húsnæðisliðurinn vegið þungt, en að aðrir liðir hefðu jafnframt hækkað og væru nú að drífa verðbólguna áfram í auknum mæli þegar hægðist á hækkun íbúðaverðs. Nefndi hann meðal annars að innlendar búvörur hefðu hækkað um 10% frá því um áramótin og þá hefðu innfluttar vörur einnig hækkað nokkuð og nefndi hann sem dæmi bíla og varahluti.
Hann sagði hins vegar jákvæð teikn á lofti þar sem hlutfall þeirra undirflokka sem nú hækka er farið að lækka á ný. Með öðrum orðum, það eru ekki jafn margir jafn margir vöru- eða þjónustuþættir að hækka og áður. „Það gæti verið að við séum að nálgast snúningspunktinn,“ sagði Þórarinn um stöðuna, en ljóst er út frá verðbólguspá bankans að sá punktur gæti dregist eitthvað út árið.