Heimilin gengið hraðar á sparnað en spáð var

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, og Ásgeir Jónsson seðlabankanstjóri á …
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, og Ásgeir Jónsson seðlabankanstjóri á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun. mbl.is/Hákon

Þrátt fyrir ýmsar hremmingar á alþjóðaefnahagssviðinu virðist þjóðarbúskapurinn innanlands standa óveðrið nokkuð vel af sér. Seðlabankinn hefur uppfært hagvaxtarspá sína frá því í maí og gerir nú ráð fyrir 5,9% hagvexti á árinu í stað 4,6%. Þetta helgast meðal annars af hraðari bata í ferðaþjónustu og því að mun meiri vöxtur hefur verið í einkaneyslu en áður var spáð, en á sama tíma hefur almenningur gengið hraðar á þann sparnað sem safnaðist upp í faraldrinum.

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á kynningarfundi peningastefnunefndar, en í morgun var tilkynnt um 0,75 prósenta stýrivaxtahækkun.

Mögulegt ofmat í útflutningstölum

Landsframleiðsla á fyrsta ársfjórðungi þessa árs mældist 1,1% hærri en á síðasta ársfjórðungi síðasta árs samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þar með er árshækkunin 8,6%, en það er talsvert meiri aukning en spáð var. Þórarinn sagði reyndar nýjar upplýsingar benda til að um ofmat á útflutningi á sjávarútvegsvörum sé að ræða í bráðabirgðatölunum og að líklegra sé að árshækkunin sé því um 7,5%. Það sé engu að síður hærra en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Einkaneysla aukist mikið á kostnað sparnaðar

Benti Þórarinn á að vísbendingar væru um að einkaneysla hefði verið áfram mjög kröftug á öðrum ársfjórðungi þessa árs og að hún hafi aukist um 14% samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Það væri töluvert meiri vöxtur en spáð var í maí og að útlit væri fyrir að heimilin hafi dregið hraðar úr sparnaði eða gengið á umframsparnað sem safnaðist upp í faraldrinum en bankinn hafði áður gert ráð fyrir.

Er nú gert ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu verði 7,2% yfir allt árið, en í maí spáði bankinn 3,1% vexti. Hins vegar er gert ráð fyrir að hægjast muni á vextinum á seinni hluta ársins meðal annars vegna aukinnar verðbólgu og þrengingar á fjárhagslegum skilyrðum. Þá vísaði Þórarinn til könnunar sem sýndi að heimilin væru nú svartsýnni um efnahagshorfur en þau voru fyrr á árinu.

Spá nú 300 þúsund fleiri ferðamönnum

Fjöldi ferðamanna til landsins hefur aukist nokkuð hraðar en bankinn spáði fyrr á árinu og í nýuppfærðri spá sinni gerir bankinn ráð fyrir samtals 1,7 milljónum farþegum á árinu í stað 1,4 milljónum. Þá benti hann á að þrátt fyrir erfiðari efnahagsstöðu í okkar helstu viðskiptalöndum þá sýndu leitarniðurstöður á Google að ferðamenn væru enn að leita mikið að ferðalögum til landsins og það væri jákvætt merki.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK