Komin með stjórn á fasteignamarkaðinum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Hákon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til, til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu hér á landi, hafi skilað sér en full áhrif þeirra muni þó koma fram á næstu mánuðum. 

„Við sjá­um merki um að fast­eigna­markaðurinn sé aðeins að hægja á sér. Það er erfitt að gera sér grein fyr­ir öðrum áhrif­um, það er of stutt um liðið. Fjármögnunarkostnaður fyrirtækja hefur einnig hækkað sem hægir aðeins á atvinnulífinu. Svo bindum við vonir við að hærri innlánsvextir hvetji til sparnaðar.“ seg­ir Ásgeir í sam­tali við mbl.is að lokn­um fundi þar sem grein var gerð fyr­ir ákvörðun pen­inga­stefnu­nefnd­ar um að hækka stýri­vexti um 75 punkta, eða 0,75 pró­sentu­stig. 

„En á sama tíma fáum við fullt af já­kvæðum frétt­um; Meiri hag­vöxt­ur, hærra fisk­verð, mik­il fjölg­un ferðamanna. Þannig að við það kem­ur á móti þeim aðgerðum sem við höf­um ráðist í til að koma í veg fyr­ir þenslu í efna­hags­líf­inu. Ég tel að við séum kom­in með ágæta stjórn á fast­eigna­markaðnum – að það hægi á hon­um og svo er beðið eft­ir meira fram­boði. Núna erum við far­in að hugsa um hag­kerfið, al­menn­ar hækk­an­ir á öllu mögu­legu, við verðum að ein­beita okk­ur að því,“ seg­ir Ásgeir og bæt­ir því við að vel geti verið að aðgerðir til að koma í veg fyr­ir að hag­kerfið of­hitni komi illa niður á fast­eigna­markaðinum þegar kemur fram á næsta ár. 

Áhyggjuefni að lífskjör velti á húsnæði

Nýlega hækkaði Seðlabankinn stýrivexti um hundrað punkta í einu og núna um 75 punkta. Lánþegaskilyrði hafa verið hert og enn gætir skorts á húsnæðismarkaði. Erum við að horfa fram á nýja týnda kynslóð á húsnæðismarkaði?

„Við eig­um eft­ir að sjá það. Síðastliðin þrjú ár var eft­ir­spurn á fast­eigna­markaði að miklu leyti rek­in áfram af fyrstu kaup­end­um, þrjá­tíu til fjör­tíu pró­sent af kaup­end­um á fast­eign­um voru fyrstu kaup­end­ur, sem er já­kvætt. Ég álít að þá hafi nokkrir árgangar komist inn á fast­eigna­markaðinn. En svo koma vitanlega nýir árgangar af ungu fólki sem þarf hús­næði,“ seg­ir Ásgeir. 

Hann segist hafa áhyggjur af því að lífskjör fólks ráðist af stöðu þess á fasteignamarkaði. „Það er afleiðing þessara miklu hækkana á húsnæðisverði.“ Hann bætir við að besta leiðin til að ná jafnvægi á fasteignamarkaði sé aukið framboð. 

„Þess vegna skiptir það líka máli að við náum tökum á raunhagkerfinu. Stöðvum verðbólgu svo að við getum aftur opnað leiðina fyrir fyrstu kaupendur á fasteignamarkað.“ Þá segir Ásgeir áhyggjuefni að stórir árgangar ungs fólks séu að koma inn á atvinnumarkað og stórir hópar aðflutts vinnuafls, sem mun þurfa húsnæði. 

„En það sem væri meira áhyggju­efni væri það að ef að ungt fólk kæmi núna inn á fast­eigna­markaðinn, skuld­setti sig upp í rjáf­ur til að kaupa fast­eign­ir á allt of háu verði. Það væri verra. Ég held að það sé þó betra að þreyja þorr­ann á leigu­markaði eða með öðrum hætti bíða eftir því að nýtt framboð komi inn á markaðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK