Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til, til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu hér á landi, hafi skilað sér en full áhrif þeirra muni þó koma fram á næstu mánuðum.
„Við sjáum merki um að fasteignamarkaðurinn sé aðeins að hægja á sér. Það er erfitt að gera sér grein fyrir öðrum áhrifum, það er of stutt um liðið. Fjármögnunarkostnaður fyrirtækja hefur einnig hækkað sem hægir aðeins á atvinnulífinu. Svo bindum við vonir við að hærri innlánsvextir hvetji til sparnaðar.“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is að loknum fundi þar sem grein var gerð fyrir ákvörðun peningastefnunefndar um að hækka stýrivexti um 75 punkta, eða 0,75 prósentustig.
„En á sama tíma fáum við fullt af jákvæðum fréttum; Meiri hagvöxtur, hærra fiskverð, mikil fjölgun ferðamanna. Þannig að við það kemur á móti þeim aðgerðum sem við höfum ráðist í til að koma í veg fyrir þenslu í efnahagslífinu. Ég tel að við séum komin með ágæta stjórn á fasteignamarkaðnum – að það hægi á honum og svo er beðið eftir meira framboði. Núna erum við farin að hugsa um hagkerfið, almennar hækkanir á öllu mögulegu, við verðum að einbeita okkur að því,“ segir Ásgeir og bætir því við að vel geti verið að aðgerðir til að koma í veg fyrir að hagkerfið ofhitni komi illa niður á fasteignamarkaðinum þegar kemur fram á næsta ár.
Nýlega hækkaði Seðlabankinn stýrivexti um hundrað punkta í einu og núna um 75 punkta. Lánþegaskilyrði hafa verið hert og enn gætir skorts á húsnæðismarkaði. Erum við að horfa fram á nýja týnda kynslóð á húsnæðismarkaði?
„Við eigum eftir að sjá það. Síðastliðin þrjú ár var eftirspurn á fasteignamarkaði að miklu leyti rekin áfram af fyrstu kaupendum, þrjátíu til fjörtíu prósent af kaupendum á fasteignum voru fyrstu kaupendur, sem er jákvætt. Ég álít að þá hafi nokkrir árgangar komist inn á fasteignamarkaðinn. En svo koma vitanlega nýir árgangar af ungu fólki sem þarf húsnæði,“ segir Ásgeir.
Hann segist hafa áhyggjur af því að lífskjör fólks ráðist af stöðu þess á fasteignamarkaði. „Það er afleiðing þessara miklu hækkana á húsnæðisverði.“ Hann bætir við að besta leiðin til að ná jafnvægi á fasteignamarkaði sé aukið framboð.
„Þess vegna skiptir það líka máli að við náum tökum á raunhagkerfinu. Stöðvum verðbólgu svo að við getum aftur opnað leiðina fyrir fyrstu kaupendur á fasteignamarkað.“ Þá segir Ásgeir áhyggjuefni að stórir árgangar ungs fólks séu að koma inn á atvinnumarkað og stórir hópar aðflutts vinnuafls, sem mun þurfa húsnæði.
„En það sem væri meira áhyggjuefni væri það að ef að ungt fólk kæmi núna inn á fasteignamarkaðinn, skuldsetti sig upp í rjáfur til að kaupa fasteignir á allt of háu verði. Það væri verra. Ég held að það sé þó betra að þreyja þorrann á leigumarkaði eða með öðrum hætti bíða eftir því að nýtt framboð komi inn á markaðinn.“