Mikil fjölgun starfa og vísbendingar um ofhitnun

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. mbl.is/Hákon

Hvert metið á fætur öðru hefur verið slegið á vinnumarkaði. Störfum á öðrum ársfjórðungi fjölgaði um 8,3% frá sama tíma í fyrra og vinnuvikan er farin að lengjast á ný eftir að hún styttist í faraldrinum. Hefur heildarvinnustundum fjölgað um 9,1% og er það mesta ársfjölgun frá upphafi mælinga. Þá fjölgar lausum störfum hratt og atvinnuleysi hefur lækkað mikið.

Þetta kom fram í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun, en í morgun varð ljóst að bankinn myndi hækka stýrivexti sína um 0,75 prósentur.

Þórarinn benti á að atvinnuþátttaka hefði aukist mikið að undanförnu og væri nú komin upp í 80% sem væri sama tala og fyrir farsótt. Þá hefði atvinnuleysi minnkað hratt og væri nú undir 4%.

Sagði Þórarinn að verulegur kraftur væru í vinnumarkaðinum og vísbendingar væru um að hann væri að ofhitna.

12 þúsund laus störf

Í könnunum hjá fyrirtækjum kæmi einnig í ljós að mikill skortur væru á vinnuafli, en lausum störfum hefur fjölgað hratt og mælast nú um 12 þúsund og hefur fjölgað um 5 þúsund milli ársfjórðunga. Vísaði Þórarinn til þess að 54% fyrirtækja segðu að það skorti starfsfólk og það væri næst hæsta gildi frá upphafi mælinga. Þá teldi 61% fyrirtækja að þau væru að starfa á fullum afköstum og að þau ættu erfitt með að mæta óvæntri eftirspurn.

Þessari stöðu hefur verið mætt með innflutningi á vinnuafli, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta voru 3.510 á öðrum ársfjórðungi og er þetta mesti fjöldi sem hefur flutt til landsins á einum fjórðungi frá því að Hagstofan byrjaði að birta þær tölur.

Gerir Seðlabankinn ráð fyrir því að atvinnuleysi verði um 3,8% að meðaltali í ár en þokist upp í liðlega 4% þegar líður á spátímann sem er það atvinnuleysi sem talið er samræmast verðstöðugleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK