Fasteignafélagið Kaldalón hefur aukið hlutafé sitt um 28% með útgáfu nýrra hlutabréfa sem seld voru „tilgreindum hæfum fjárfestum“ sem samanstanda af lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum, vátryggingafélögum og fjármálafyrirtækjum.
Samtals voru gefnir út 2.222.222.222 hlutir og voru þeir seldir á genginu 1,8 krónur á hlut, en það er meðalgengi Kaldalóns síðustu tíu viðskiptadaga á First North-markaðinum. Samtals nemur heildarsöluverð nýju hlutanna því fjórum milljörðum.
Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallarinnar, en þar kemur einnig fram að markmiðið sé að efla félagið fyrir komandi vöxt og tryggja sterka lausafjárstöðu.
Samhliða þessu samþykktu allir hluthafar Kaldalóns að falla frá forgangsrétti sínum að nýju hlutafé í félaginu.
Í gær tilkynnti Kaldalón um hálfsársuppgjör sitt, en félagið hagnaðist um 1,4 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins. Nema eignir félagsins 31,6 milljörðum og jukust um 10 milljarða frá áramótum. Kaldalón hefur áður tilkynnt að það stefni á að flytja sig yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar. Í fjárfestakynningu kom jafnframt fram að félagið hygði á frekari vöxt og að eignir þess gætu náð um eða yfir 50 milljörðum um mitt næsta ár ef skilyrði yrðu hagstæð.