Hugi Halldórsson hefur hafið störf sem markaðsstjóri Ísorku ehf. sem sérhæfir sig í lausnum til hleðslu rafbíla.
Hugi býr að mikilli reynslu af markaðsmálum, auk reynslu úr fjarskiptageira og af kvikmyndagerð.
„Rafbílar eru framtíðin og draumur að fá að leggjast á árar með kraftmiklu fyrirtæki sem veitir eigendum slíkra farartækja nauðsynlega grunnþjónustu. Ég hlakka mjög til áframhaldandi starfa með þeim öfluga hópi sem hjá Ísorku er,“ segir Hugi í tilkynningu.
Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri Ísorku, bætir við: :
„Ísorka hefur vaxið hratt síðustu ár og hlotið lof fyrir öflugar og öruggar lausnir til hleðslu rafbíla. Okkur finnst afar ánægjulegt að hafa fengið til okkar öflugan liðsauka í Huga sem meðal annars hjálpar okkur að halda þeim árangri á lofti og styðja við áframhaldandi velgengni fyrirtækisins.“
Hugi kom til Ísorku frá markaðsdeild Play. Hann hefur líka starfað sjálfstætt sem ráðgjafi í markaðsmálum fyrir fjölda fyrirtækja, svo sem Símann, BL og Já.is. Á árunum 2016 til 2018 var Hugi deildarstjóri einstaklingssölu hjá Vodafone, en fram að þeim tíma hafði hann frá 2011 rekið þjónustufyrirtæki í kvikmyndaiðnaði.
Hugi er kvæntur Ástrós Signýjardóttur, framkvæmdastjóra Info Norden á Íslandi og saman eiga þau fjögur börn.