Verslunin Hirzlan skrifstofuhúsgögn hefur bæst í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa heitið því að hækka ekki vöruverð út þetta ár. Í ljósi þess að verðbólgan mælist nú um 10% og spár m.a. Seðlabankans um að verðbólga eigi enn eftir að hækka út árið kom upp ákall þess efnis að verslanir og þjónustuaðilar myndu halda aftur af verðhækkunum til að sporna við verðbólgunni.
„Leggjumst öll á eitt,“ segir í tilkynningu frá Hirzlunni og er því jafnframt heitið að fyrirtækið muni ekki hækka vöruverð sitt til næsta árs.
Fyrr í vikunni var greint frá því að Krónan ætlaði að frysta verð á 240 vöruliðum til að vinna gegn verðbólgunni. Í gær staðfesti framkvæmdastjóri Bónus að fyrirtækið myndi ekki frysta vöruverð, en sagði fyrirtækið reyna alla daga að sporna við hækkunum.