Málarekstri héraðssaksóknara gegn bræðrunum sem yfirleitt eru kenndir við Sjólaskip lauk í gær þegar saksóknari lýsti því yfir við upphaf þinghalds við Héraðsdóm Reykjavíkur að fallið yrði frá öllum ákæruliðum. Þar með lauk lauk málarekstri sem staðið hefur yfir í 13 ár. Málið hófst með skattrannsókn á bræðrunum og tveimur systrum þeirra haustið 2009, sem stóð yfir í sex ár, en síðar voru gefnar út ákærur á hendur þeim öllum sumarið 2019, tíu árum eftir að rannsóknin hófst.
Systurnar Berglind Björk Jónsdóttir og Ragnheiður Jóna Jónsdóttir voru ákærðar hvor í sínu lagi fyrir meint skattalagabrot en sýknaðar fyrir dómi vorið 2021.
Bræðurnir Haraldur Reynir Jónsson og Guðmundur Steinar Jónsson voru sömuleiðis ákærðir hvor í sínu lagi fyrir meint skattalagabrot auk þess sem þeir voru ákærðir saman í einu máli er varðar rekstur á erlendu félagi. Ákærunum fyrir meintu skattalagabrotin var vísað frá dómi og ákæran fyrir starfsemi á erlendu félagi var síðan felld niður í gærmorgun.
Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag, föstudag, og meðal annars rætt við Harald Reyni um niðurstöðuna.