Afkoma Landsvirkjunar hefur aldrei verið betri í sögu fyrirtækisins en á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrartekjur námu 19 milljörðum á fyrri helmingi ársins og um 30% hækkun hefur því átt sér stað ef miðað er við sama tímabil árið áður. Þetta kemur fram í tilkynningu Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri orkufyrirtækisins, segir í framangreindri tilkynningu að hækkun á milli ára megi einkum rekja til hækkunar á raforkuverði til stórnotenda.
Fram kemur í téðri tilkynningu að helstu atriði árshlutareiknings Landsvirkjunar séu sex talsins. Þau eru eftirfarandi:
Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 165,3 milljónum USD (22,2 mö.kr.), en var 99,3 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um 66,5%.
Hagnaður tímabilsins var 144,5 milljónir USD (19,4 ma.kr.), en var 55,1 milljón USD á sama tímabili árið áður.
Rekstrartekjur námu 339,3 milljónum USD (45,5 mö.kr.) og hækka um 77,3 milljónir USD (29,5%) frá sama tímabili árið áður.
Nettó skuldir lækkuðu um 147,5 milljónir USD (19,8 ma.kr.) frá áramótum og voru í júnílok 1.353,3 milljónir USD (181,3 ma.kr.).
Handbært fé frá rekstri nam 234,9 milljónum USD (31,5 mö.kr.), sem er 43,6% hækkun frá sama tímabili árið áður.
Meðalverð til stórnotenda án flutnings var 42,1 USD á megavattstund, sem er hæsta verð á fyrri árshelmingi í sögu Landsvirkjunar.