Eyrir setur 400 milljónir í Justikal

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar, Margrét Anna Einarsdóttir, forstjóri …
Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar, Margrét Anna Einarsdóttir, forstjóri Justikal og Ólafur Einarsson, tæknistjóri Justikal, við undirritun samningsins. Ljósmynd/María Kjartansdóttir

Eyrir vöxtur, sjóður í eigu Eyris invest, hefur fjárfest fyrir 400 milljónir í íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Justikal sem framleiðir hugbúnaðarlausn sem gerir lögmönnum og öðrum kleift að senda gögn rafrænt til dómstóla. Með þessari fjárfestingu ætlar Justikal að efla þróun og byggja upp alþjóðlegt sölu- og markaðsteymi til að sækja á erlenda markaði. Frá þessu er greint í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Með lausn Justikal geta málsaðilar fylgst með framvindu sinna mála í réttarkerfinu og fengið sjálfvirkar tilkynningar þegar nýir atburðir verða í málum sem tengjast þeim. Auk þessa er fjöldi annarra eiginleika í lausninni sem geta aukið afkastagetu aðila í réttarkerfinu, en hugbúnaðurinn hefur verið í þróun síðustu fjögur ár. Hefur dómstólasýslan samþykkt að lögmenn og aðilar megi nota lausnina til að senda öllum héraðsdómstólum á Íslandi gögn rafrænt.

Í tilkynningunni er haft eftir Margréti Önnu Einarsdóttur, stofnanda og forstjóra Justikal, að hún hafi vel kynnst umhverfi og áskorunum sem lögmenn þurfi að takast á við vegna pappírssendinga í lögmannsstörfum sínum. Þá sé einnig talsvert um rafræn gögn og rafrænar undirskriftir sem ekki sé hægt að prenta út.

„Stofnendur Justikal telja að þeir geti lækkað málskostnað aðila og í kjölfarið gert dómstóla aðgengilegri fyrir tekjulægri aðila. Sparnaður fyrir samfélagið með notkun lausnar Justikal getur verið gríðarlegur eða u.þ.b. 3,3 milljarðar á ári fyrir íslenskt samfélag," er haft eftir Margréti Önnu í tilkynningunni.

Justikal mun á næstu mánuðum ráða fólk í hugbúnaðarþróun, sölu- og markaðsstarf. Gerir fyrirtækið ráð fyrir að vaxa hratt alþjóðlega á stuttum tíma. „Eyrir Vöxtur fjárfestir í fyrirtækjum sem eru tilbúin til að taka hröð vaxtarskref á alþjóðamörkuðum. Justikal fellur vel að áherslum sjóðsins og við hlökkum til þess að starfa með þessu frábæra teymi og erum spennt fyrir að taka þátt í að koma lausn Justikal inn á alþjóðamarkað,“ er haft eftir Stefaníu Guðrúnu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra Eyris Vaxtar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK