Niðurstaðan „sýnir rekstur í járnum“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarsjóður Reykjavíkurborgar, A-hluti borgarinnar, var rekinn með 8,9 milljarða tapi á fyrri hluta ársins. Það er rúmlega fjórum milljörðum lakari afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir að tekjur hafi verið um 1,5 milljarði yfir áætlun voru rekstrarútgjöld um 3,4 milljörðum yfir áætlun og fjármagnsgjöld 1,9 milljörðum hærri en áætlun gerði ráð fyrir.

Eignir Félagsbústaða jukust um 8 milljarða

Þegar B-hluti borgarinnar er tekinn með er niðurstaðan nokkuð önnur. 13,2 milljarða hagnaður var á heildarrekstrinum, en áætlun hafði gert ráð fyrir 3,4 milljarða hagnaði. Undir B-hluta falla stofnanir sveitarfélagsins, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem eru að helmingi eða meirihluta í eigu borgarinnar. Þar á meðal eru t.d. Orkuveitan og Félagsbústaðir, en jákvæðar matsbreytingar á fjárfestingaeignum síðarnefnda félagsins voru metnar á 8 milljarða.

Borgarráð samþykkti árshlutareikninginn í morgun og í tilkynningu frá borginni vegna hans segir að hann „sýnir rekstur í járnum en hægan viðsnúning eftir heimsfaraldur.“ Þá segir jafnframt að á fundi borgarráðs í morgun hafi verið samþykktar tillögur til að draga úr rekstrarhalla.

Fjárfestingar dregnar saman um 23%

Þannig hefur staða framkvæmda á fjárfestingaráætlun borgarinnar verið endurmetin, en vegna aukinnar þenslu í hagkerfinu hefur verið talsvert um ófyrirséðar seinkanir á verkum. Telur borgin að fyrirséð sé að fjárfestingaráætlun ársins standist ekki. Í mörgum tilfellum hefur þátttaka í útboðum verið dræm og tilboð langt frá kostnaðaráætlun. Metur eignaskrifstofa borgarinnar það svo að fjárfestingar ársins verði um 25 milljarðar, en það er um 7,5 milljörðum lægri upphæð en áætlunin gerði ráð fyrir, eða 23% lækkun.

Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs.
Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs. mbl.is/Óttar

„Þrátt fyrir að vel hafi gengið að ná atvinnuleysi niður hafa stríðsátök og viðvarandi vandamál í aðfangakeðjum sett hagkerfi heimsins í uppnám. Verðbólga mælist mun meiri en spáð var, bæði hérlendis sem og í öllum helstu viðskiptalöndum Íslands. Þá hefur óvissa á fjármálamörkuðum aukist mikið, sem m.a. hefur endurspeglast í lækkun hlutabréfaverðs og hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Þessi breytta staða í ytra umhverfi endurspeglast í rekstrarniðurstöðu borgarinnar á tímabilinu,“ segir í tilkynningunni.

Boða hagræðingu þvert á línuna á næsta ári

Þá var samþykkt rammaúthlutun fyrir næsta ár þar sem svið borgarinnar eru hvött til aðhalds í rekstri. Gert er ráð fyrir hagræðingu sem nemur 1% af launakostnaði og verða settar fram nýjar reglur um ráðningar og fyrirkomulag um eftirfylgni með þeim.

„Jafnframt samþykkti borgarráð að skipa aðgerðateymi vegna fjárhagslegra samskipta við ríkið, en umtalsvert hallar á að lögbundnum verkefnum sveitarfélaga hafi fylgt fullnægjandi fjármagn til rekstrar,“ segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK