Innviðaráðherra hefur sett Ólaf Árnason, forstöðumann nýsköpunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun, í embætti forstjóra stofnunarinnar frá 1. september til 31. desember 2022. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir lét af störfum sem forstjóri nú um mánaðarmótin eftir að hafa sinnt embættinu frá árinu 2013.
Ólafur er með meistaragráðu í umhverfismati, umhverfisstjórnun og skipulagsmálum frá Oxford Brookes háskóla og MPM gráðu í verkefnisstjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Ólafur hefur starfað að skipulagsmálum og umhverfismati síðustu tvo áratugi - innan stjórnsýslunnar, við ráðgjöf, kennslu og rannsóknir. Síðastliðin tvö ár hefur Ólafur starfað sem forstöðumaður nýsköpunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun og staðgengill forstjóra.