Hagnaður kynlífstækjaverslunarinnar Blush nam í fyrra um 49,2 milljónum króna og dróst saman um tæpar 17 milljónir króna. Tekjur félagsins jukust þó nokkuð á milli ára, eða um tæpar 190 milljónir króna, og námu í fyrra 602,6 milljónum króna.
Þetta sýnir nýr ársreikningur Blush.
Aftur á móti jukust rekstrargjöld félagsins töluvert á milli ára, eða um rúmar 213 milljónir króna, og námu 543,3 milljónum. Þó ber að hafa í huga að verslunin flutti í nýtt húsnæði á árinu og í ársreikningi kemur fram kostnaður við framkvæmdir og standsetningu verslunarinnar.
Eins og áður hefur komið fram hafa tekjur Blush aukist töluvert á undanförnum árum. Árið 2019 námu tekjur félagsins um 220 milljónum króna. Þær námu 413 milljónum króna árið 2020 og sem fyrr segir tæplega 603 milljónum króna í fyrra.
Eigið fé Blush var í lok síðasta árs um 151 milljón króna. Þá fjölgaði stöðugildum um þrjú á árinu.