Eiríkur Sigurðsson hefur verið ráðinn samskiptastjóri Hugverkastofunnar. Hann var áður forstöðumaður samskiptasviðs Háskólans í Reykjavík. Eiríkur tekur við stöðu samskiptastjóra af Jóni Gunnarssyni sem hefur hafið störf við Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) í Alicante á Spáni.
Í tilkynningu Hugverkastofunnar segir að Eiríkur muni m.a. hafa umsjón með kynningar-, fræðslu- og útgáfumálum Hugverkastofunnar, sinna fjölmiðlasamskiptum og samfélagsmiðlum, ritstýra ársskýrslu og leiða vinnu við gerð samskiptaáætlunar.
Eiríkur hefur yfir tuttugu ára reynslu af almannatengslum, vísindamiðlun, vöruþróun og markaðsmálum. Hann hefur undanfarin sjö ár leitt samskiptasvið Háskólans í Reykjavík. Frá 2010 til 2014 var hann upplýsingafulltrúi og vörumerkjastjóri ORF Líftækni, sat í framkvæmdastjórn og bar um tíma ábyrgð á hugverkavernd fyrirtækisins.
Þar áður var Eiríkur ráðgjafi hjá KOM almannatengslum og kynningarstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Hann lauk meistaragráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands 1997, BSc gráðu í líffræði frá sama skóla 1994 og diplóma til kennsluréttinda frá Háskólanum Í Reykjavík 2009.
Hlutverk Hugverkastofunnar, sem heyrir undir nýtt ráðuneyti háskóla, nýsköpunar og iðnaðar, er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðamerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.