Heildarfjöldi farþega Icelandair var 514 þúsund í nýliðnum ágúst, samanborið við 264 þúsund í ágúst í fyrra. Sætanýting var 89%, sem er með bestu sætanýtingu félagsins í ágústmánuði. Framboðnir sætiskílómetrar voru um 82% af framboðinu í ágúst 2019 og fjöldi farþega var um 87% af fjöldanum í sama mánuði árið 2019.
Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair um flutningatölur fyrir ágúst.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að farþegar í millilandaflugi voru 489 þúsund, samanborið við 241 þúsund í ágúst 2021. Fjöldi farþega til Íslands var 219 þúsund og frá Íslandi 48 þúsund. Tengifarþegar voru 221 þúsund, eða 45% af heildarfjölda millilandafarþega. Stundvísi var 74%, en það hefur aukist frá síðasta mánuði sem skýrist af því að erlendir flugvellir hafa náð betri tökum á því álagi sem verið hefur á starfsemi þeirra.
Sætanýting í millilandaflugi var 89%, samanborið við 72% í ágúst 2021. Há sætanýting í ágúst er til marks um mikla eftirspurn og uppsafnaða ferðaþörf auk þess sem sala á Saga Premium sætum hefur gengið vel. Í tilkynningunni segir að há sætanýting er einnig til marks um gott jafnvægi í flugáætlun félagsins, árangursríka tekjustýringu og markaðsstarf.
Fjöldi farþega í innanlandsflugi var yfir 25 þúsund, samanborið við um 23 þúsund í ágúst 2021. Stundvísi var 82%. Sætanýting í innanlandsflugi var 73,6%, samanborið við 67,5% í ágúst 2021.
Þá voru seldir blokktímar í leiguflugi 26% fleiri en á sama tíma í fyrra. Fraktflutningar minnkuðu um 13% samanborið við ágúst í fyrra.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í téðri tilkynningu að sumarið hafi gengið vel, en í heild hefur félagið flutt um 1,4 milljón farþega í júní, júlí og ágúst, álíka marga og allt árið 2021.
„Hlutfall tengifarþega er einnig sífellt á uppleið sem er til marks um aukið jafnvægi í leiðakerfinu. Starfsfólk félagsins hefur staðið sig ótrúlega vel í þessari uppbyggingu og veitt framúrskarandi þjónustu, þrátt fyrir fjölda áskorana sem komið hafa upp undanfarna mánuði vegna afleiðinga heimsfaraldursins og innrásar Rússlands í Úkraínu.“