Ísak Gabríel Regal
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka, sem fram fór í mars, var væntanleg um mánaðamótin síðustu en nú er ljóst að útgáfa hennar mun tefjast enn frekar.
„Ég hafði gefið út strax í upphafi að við myndum reyna að klára skýrsluna fyrir ákveðin tímamörk, en það kom fljótlega í ljós að þetta væri umfangsmeiri vinna en við höfðum gert okkur grein fyrir,“ segir Guðmundur Helgason, ríkisendurskoðandi, í samtali við mbl.is
Guðmundur segir að stjórnsýsluúttektir taki sinn tíma og það þurfi að vanda til verka, en tekur jafnframt fram að skýrslan sé á lokametrunum.
„Það hefur gengið ágætlega í sumar en við reiknum með að klára þetta í þessum mánuði. Það styttist í að skýrslan fari í umsagnaferli.
Ég get ekki sagt til um hvað tekur langan tíma að vinna úr slíku en við klárum þetta núna í september,“ bætir Guðmundur við.
Spurður hvenær skýrslan verður gerð opinber segir Guðmundur að hún verður birt á heimasíðu Ríkisendurskoðunar um leið og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fengið kynningu á skýrslunni.