Play flutti 108.622 farþega í ágúst. Það er sambærilegur fjöldi og í júlí þegar 109.937 farþegar flugu með flugfélaginu.
Sætanýting í ágúst nam 86,9 prósentum samanborið við 87,9 prósent í júlí og 79,2 prósent í júní.
Í tilkynningu kemur fram að þróunin sé afar jákvæð. Hún helgist einkum af tengiflugi Play yfir Atlantshafið á milli áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum. Fram kemur einnig að stundvísi Play hafi numið 89,2% í ágúst.
Í upphafi mánaðar auglýsti flugfélagið eftir um 150 flugliðum og 55 flugmönnum fyrir næsta vor. Í fyrstu vikunni höfðu hátt í þúsund manns sótt um störfin.
„Eftir hraða en örugga uppbyggingu með fjölda nýrra áfangastaða, innleiðingu tengiflugsleiðakerfis og móttöku flugvéla er rekstur PLAY loks kominn í fastar skorður. Viðskiptamódelið er orðið að veruleika. Enn og aftur er ég er sannarlega stoltur af starfsfólki PLAY sem hefur gert þetta mögulegt. Það eru bjartir tímar framundan og bókunarstaðan er sterk,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningunni.
„Fyrir tveimur vikum hófum við miðasölu til Dulles Washington flugvallar sem er lykiláfangastaður í Bandaríkjunum. Þegar í stað var eftirspurnin mikil og bókanir fyrir næsta sumar eru strax umfram væntingar. Stóru verkefnin í vetur er að taka á móti nýjum flugvélum sem bætast við flotann og ráðningar á nýjum áhöfnum.“