Ekki raunhæft að bregðast við á einni nóttu

Bjarni Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Dufland heildsölu sem flytur inn ýmsar nikótínvörur hér á landi, segist í samtali við mbl.is vera afar ósáttur með þann stutta tíma sem að hann og aðrir sem selja nikótínvörur fengu til að bregðast við nýjum lögum um nikótínvörur.

Að hans mati mun þetta koma til með að bitna illa á rekstri fyrirtækisins og valda því að fyrirtækið tapi talsverðum fjármunum.

Eins og greint hefur verið frá var nýlega samþykkt frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um rafrettur sem fól í sér að nikótínvörur voru felldar undir lögin. Að sögn Bjarna fengu hann og aðrir sem flytja inn og selja nikótínvörur þriggja mánaða aðlögunartíma til að bregðast við breytingunum. 

„Við gátum ekki brugðist við neinu því það vantaði reglugerðina til að gera þær breytingar sem okkur er skylt að gera núna,“ segir Bjarni. Hann bætir við að þau hjá fyrirtækinu gátu ekki aðlagað starfsemi sína að lögunum þar sem að reglugerðin var ekki tilbúin fyrr en að aðlögunartíminn var liðinn. 

Frumvarpið um breytingu á lögum um rafrettur var samþykkt 16. júní en reglugerðin um nikótínvörur tók gildi 29. ágúst.

Ekki raunhæfar væntingar

„Í lögunum stóð að ýmis atriði skyldu vera skilgreind betur í reglugerð og núna er þessi reglugerð loksins komin,“ segir Bjarni sem harmar það að þeim hafi ekki verið gefinn meiri tími til að bregðast við breytingunum sem reglugerðin segir til um. Hann bendir á að núna þurfi þau að breyta sínum rekstri á svip stundu.

Bjarni segir það ekki vera raunhæft af stjórnvöldum að fyrirtæki bregðist við á einni nóttu.

„Það er ekki raunhæft að ætlast til þess að markaðurinn bregðist við þessum breytingum á einni nóttu,“ segir Bjarni sem vísar til erlendrar framkvæmdar sér til stuðnings.

„Þegar verið er að setja svona lög og reglugerðir á erlendum mörkuðum er venjan sú að hafa að lágmarki sex mánaða undirbúningstímabil til að aðlagst nýjum reglum.“

Tíminn fljótur að étast upp í sumarfrí

Að mati Bjarna felast mistök í því að lögin hafi verið samþykkt í lok síðasta þingárs rétt fyrir sumarfrí. 

„Það var gefið þriggja mánaða aðlögunartímabil þegar lögin voru sett en sá tími var ansi fljótur að étast upp í sumarfríum,“ segir Bjarni sem reiknar með að margir starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins hafi verið í sumarfríi og að þess vegna hafi reglugerðin borist svona seint. 

Hann segir það einfaldlega ekki ganga upp að reglugerðin komi þremur mánuðum eftir að lögin voru samþykkt. Hann undirstrikar það með því að nefna að það taki dágóðan tíma að breyta merkingunum á vörunum samkvæmt nýju reglugerðinni.

Muni kosta talsvert

Hann bendir á að þau hjá Dufland sitji uppi með stóran lager af nikótínvörum sem eru ekki í samræmi við nýju reglugerðina. Vörurnar eru að verðmæti tugi milljóna. Reiknar hann með því að þessar breytingar og þessar tafir á reglugerðinni eigi eftir að kosta fyrirtækið töluvert.

„Það kostar vinnu að breyta merkingunum og allt í kringum það. Það er eðlilegt fyrir heildsölu að vera með tveggja mánaða birgðir af vörum og það sama má segja um framleiðandann og verslanir svo að þarna ertu kominn með sex mánuði af birgðum," segir Bjarni til að undirstrika hve stuttan tíma fyrirtækið fékk til að breyta starfsemi sinni í samræmi við lögin og reglugerðina.

Bjarni tekur þó fram að hann sé ekki neikvæður í garð reglugerðarinnar og segir að reglugerðin sé til góðs. „Við erum jákvæð gagnvart þessari reglugerð, við viljum þessa reglugerð og við höfum alltaf verið að kalla eftir þessum lögum í kringum vörunnar.“

Hann segir það þó ábótavant hvernig allt saman í kringum lögin og reglugerðina hefur verið unnið hingað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka