Gera ráð fyrir lægri arðgreiðslum frá bönkunum

Mestu munar um að gert er ráð fyrir að arðgreiðsla …
Mestu munar um að gert er ráð fyrir að arðgreiðsla frá Landsbankanum lækki um 9 milljarða á milli ára. mbl.is/Árni Sæberg

Samtals er gert ráð fyrir að arðgreiðslur fyrirtækja sem ríkið á hlut í verði á þessu ári tæplega 44 milljarðar, en þar er átt við Íslandsbanka, Landsbankann og Landsvirkjun. Til viðbótar er gert ráð fyrir rúmlega tveggja milljarða tekjum af B-hluta fyrirtækjum, en þar er átt við ÁTVR, framlög Happdrættis HÍ til háskólans og framlög úr Húsnæðissjóði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, kynnti í morgun.

Á næsta ári er hins vegar gert ráð fyrir að arðgreiðslurnar verði 31 milljarður, en þar munar mestu um að áætlun fyrir arðgreiðslur úr Landsbankanum tæplega helmingast á milli ára.

Ljóst er að staða fyrirtækjanna þriggja var talsvert betri á síðasta ári en fjárlög fyrir árið 2022 báru með sér. Þegar frumvarpið lá fyrir var gert ráð fyrir að Íslandsbanki myndi greiða út 7 milljarða arðgreiðslu, Landsbankinn 13,3 milljarða og Landsvirkjun 8,8 milljarða. Í fjárlögum fyrir næsta ár er uppfærð áætlun fyrir þetta ár lögð fram og miðar þar við þær arðgreiðslur sem þegar hafa verið samþykktar. Var niðurstaða um 7,7 milljarða greiðsla frá Íslandsbanka, 20,5 milljarða arðgreiðsla frá Landsbankanum og 15 milljarðar frá Landsneti.

Í frumvarpinu sem var kynnt í morgun er einnig að finna áætlun fyrir næsta ár, en eins og fyrr segir er þar dregið nokkuð úr áætluðum arðgreiðslum bankanna. Gert er ráð fyrir að frá Íslandsbanka komi 4,1 milljarður. Frá Landsbankanum mun lægri upphæð frá árinu í ár, eða 11,6 milljarðar og frá Landsvirkjun sama upphæð, eða 15 milljarðar. Nemur það samtals 31,3 milljörðum, en á þessu ári er gert ráð fyrir að heildarupphæðin endi í um 43,8 milljörðum.

Í fjárlagafrumvarpinu er einnig gert ráð fyrir því að klárað verði að selja 42,5% hlut ríkisins í bankanum á næsta ári, en áætlað er að einskiptistekjur af sölunni leiði til þess að skuldahlutfall ríkisins af landsframleiðslu muni lækka vegna þessa, jafnvel þótt áfram verði halli á rekstri ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK