Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, áætlar að meðalverð á rafbílum geti hækkað um tæpar tvær milljónir króna þegar núverandi ívilnanir renna sitt skeið.
Kveðið er á um þessar ívilnanir í lögum um virðisaukaskatt en viðkomandi lagagreinum um rafbíla var breytt um miðjan júní í sumar.
Fyrir lagabreytinguna var heimilt að fella niður virðisaukaskatt af rafbílum og vetnisrafbílum. Niðurfellingin skyldi vera að hámarki 1.560 þúsund frá 1. júlí 2020 til og með 31. desember 2023. Þá var sömuleiðis heimilt að fella niður virðisaukaskatt af tengiltvinnbílum fyrir að hámarki 480 þúsund frá 1. janúar til 31. desember á þessu ári. Þessar ívilnanir voru jafnframt takmarkaðar við skráningu að hámarki 15 þúsund bifreiða í ökutækjaskrá í hverjum þessara þriggja flokka.
Með lagabreytingu í júní síðastliðnum var hámark niðurfellingarinnar lækkað í 1.320 þúsund, eða um 240 þúsund, frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023. Þá var kvótinn fyrir heildarskráningu rafbíla hækkaður úr 15 í 20 þúsund bíla.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.