Kortavelta erlendra ferðamanna aldrei meiri

Kortavelta erlendra ferðamanna hefur aldrei mælst hærri.
Kortavelta erlendra ferðamanna hefur aldrei mælst hærri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kortavelta erlendra ferðamanna á Íslandi jókst um tæp 7,3% milli mánaða og nam rúmum 37,9 milljörðum króna í ágúst. Hún hefur aldrei mælst meiri.

Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi í síðasta mánuði var 30,3% og var það næstum jafnt því sem var í ágúst 2019. Þá var hlutfallið tæp 30,6%. Bandarískir ferðamenn eru ábyrgir fyrir 39% af allri erlendri kortaveltu hérlendis í ágúst. Þjóðverjar koma næstir með 9,3% og svo Ítalir með 7,9%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Þar kemur einnig fram að heildargreiðslukortavelta í ágúst hafi numið 125,2 milljörðum króna. Hún jókst um 23,9% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Þar af var heildarkortavelta Íslendinga hérlendis 87,3 milljarðar og jókst hún um 13,5% á milli ára miðað við breytilegt verðlag.

Kortavelta í verslun á netinu jókst um 20%

Innlend kortavelta í verslun nam rúmum 44,8 milljörðum kr. í ágúst sem er 5,33% meira en á sama tíma í fyrra. Innlend kortavelta í þjónustu nam rúmum 42,4 milljörðum kr. í síðasta mánuði og jókst hún um rúm 23,7% á milli ára.

Innlend kortavelta í verslun á netinu nam rúmum 3,3 milljörðum króna í ágúst og jókst hún um rúm 20% á milli ára. Þar af hefur netverslun í matvöruverslunum aukist mest en netverslun í flokknum „Stórmarkaðir og dagvöruverslanir" jókst um tæp 37,9% frá fyrra ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK