Með þeim skilyrðum sem felast í kaupum Ardian á Mílu er samkeppnishindrunum rutt úr vegi og frjór jarðvegur skapaður fyrir öfluga samkeppni á fjarskiptamarkaði, til hagsbóta viðskiptavinum og neytendum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu, sem hefur fallist á kaupin.
„Samkeppni í uppbyggingu og rekstri innviða hér á landi hefur skilað Íslandi í fremstu röð á þessu sviði. Á þeim umbreytingatímum sem framundan eru mun það hafa úrslitaþýðingu fyrir samkeppnishæfni Íslands að stjórnvöld og atvinnulíf hlúi að samkeppni á þessu sviði,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í tilkynningu.
„Innkoma sjálfstæðs innviðafjárfestis inn á íslenskan markað og rof á eignatengslum Símans og Mílu er til þess fallið að treysta samkeppni ef vel er að málum staðið. Til þess að svo megi verða þurfa forsendur og skilmálar viðskiptanna að styðja við samkeppni. Sáttinni sem hér er kynnt er ætlað að tryggja það,“ bætir hann við.