Þeir neytendahópar sem íslenskur sjávarútvegur horfir helst til eru kröfuharðir en það er eftirspurn eftir sjávarafurðum í hæsta gæðaflokki og það eigum við að nýta okkur.
Þetta segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Heiðrún Lind er í ítarlegu viðtali í ViðskiptaMogganum í þessari viku. Þar ræðir hún um nefnd sem ætlað er að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og hvort vinna nefndarinnar sé til þess fallin að skila einhverri niðurstöðu, um samkeppnishæfni sjávarútvegsins erlendis, um það hvort frekari hagræðingar sé þörf í greininni, hvernig framtíðarhorfur séu og margt fleira.
Eftirfarandi kafli viðtalsins rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur hér í heild sinni.
---
Við höfum í nokkur ár rætt hvernig ferðamenn við viljum helst fá til landsins, og skynsama niðurstaðan virðist vera sú að við horfum frekar til þess sem kallast betur borgandi ferðamenn. Mætti taka sambærilega umræðu um sjávarútveginn, sem er líkt og ferðaþjónustan útflutningsgrein sem á í harðri samkeppni eins og hér var rakið? Þurfum við að einblína á einn markhóp frekar en annan?
„Það er stundum vísað til þess að það þurfi að framleiða meira prótein á heimsvísu til að fæða stækkandi heim. Það er í sjálfu sér rétt en á sama tíma er ljóst að við erum ekki að fara að keppa við aðrar þjóðir í þeirri framleiðslu nema að hluta til. Þess vegna eigum við að einblína á betur borgandi markaði þar sem við seljum okkar vörur til neytenda sem gera kröfur. Við erum að selja hágæðavöru og ætlumst til þess að fá greitt í samræmi við það,“ segir Heiðrún Lind.
„Það er klárlega aukin spurn eftir sjávarafurðum í hæsta gæðaflokki. Evrópa, Bandaríkin og Asía eru þar augljósir og spennandi kostir fyrir íslenskan fisk, þar sem stækkandi millistétt er reiðubúin að greiða fyrir fisk sem veiddur er og unninn með forsvaranlegum hætti – umhverfislega og samfélagslega.“
Þá segir Heiðrún Lind að það sé mikilvægt að horfa til þess hvaða kröfur neytendur gera í þessum efnum.
„Við verjum við miklum tíma í að ræða um kerfið sjálft, hámarkshlutdeildina, gjaldtöku, samþjöppun og skilgreiningu á tengdum aðilum, svo eitthvað sé nefnt, en horfum of sjaldan til þess hvað markaðurinn vill frá okkur – og hvernig við ætlum að mæta þeim kröfum sem neytendur gera til afurða okkar,“ segir hún.
„Þeir neytendahópar sem við erum helst að horfa til vilja fá sjávarafurðir á ásættanlegu verði, þeir gera kröfur um gæði, vilja vita hvert kolefnisfótsporið er, hvort að fiskur sé veiddur með sjálfbærum hætti, upplýsingar um rekjanleika, hvernig aðbúnaður starfsmanna er og þannig mætti áfram telja. Þetta eru vel upplýstir og kröfuharðir neytendur. Við þurfum að gaumgæfa vel hvernig við ætlum að tryggja að þessir hópar velji íslenskar sjávarafurðir umfram aðrar. Þetta ætti að vera sameiginlegt verkefni greinarinnar og stjórnvalda. Við þurfum sameiginlega að tryggja að upplýsingar um framúrskarandi íslenskan fisk komist til vitundar neytenda þarna úti og að við búum til jarðveg hér á landi sem stuðlar að því að við getum framleitt þá vöru sem neytandinn vill. Í þessu verkefni er enginn maður eyland.“