Skúli fær matsmann til að taka út störf Sveins Andra

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Samsett mynd

Dómkvaddur matsmaður verður fenginn til að skoða og meta hvort skiptakostnaður við þrotabú EK1923 hafi verið eðlilegur, en samtals var kostnaður við skipti félagsins 198 milljónir og var þóknun til skiptastjóra samtals upp á 167 milljónir. Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar sem heimilaði að kvaddur yrði til matsmaður, en héraðsdómur hafði áður hafnað beiðninni.

Er þetta framhalds á langa sögu deilna á milli athafnarmannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, sem jafnan er kenndur við Subway, og Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, en Sveinn Andri var skiptastjóri EK1923 og Skúli eigandi þess félags. Þetta er þó ekki eina dómsmálið sem Skúli stendur í, því hann höfðaði mál í tengslum við gjaldþrot EK1923 gegn bæði endurskoðunarskrifstofunni KPMG og lögmannsstofunni Logos, en kröfunni á Logos hefur nú verið vísað frá. Metur Skúli þar tjón sitt vera um 715 milljónir. 

Það eru þrjú félög sem fara fram á að matsmaður verði dómkvaddur, en það eru Leiti eignarhaldsfélag, Sjöstjarnan og Stjarnan, en öll félögin eru í eigu Skúla. Var Leiti eigandi EK1923, en hin tvö félögin áttu kröfur á EK1923 við gjaldþrotaskiptin.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms vegna málsins að forsvarsmaður félaganna þriggja telji að tímaskýrslur Sveins Andra hafi verið umfram efni og er meðal annars vísað til þess að dæmdur málskostnaður í fjórum málum sem þrotabúið höfðaði gegn Skúla eða félögum hans til riftunar greiðslum og gjörningum hafi numið 11,4 milljónum, en að málskostnaðarkröfur þrotabúsins hafi numið mörgum tugum milljóna. Kemur einnig fram í matsbeiðninni að talið sé að misræmi vera í tímaskýrslum sem Sveinn Andri hafi lagt fram og að rannsaka þurfi þetta misræmi.

Er meðal annars vísað til þess að hefði þóknun til Sveins Andra verið lægri hefði Sjöstjarnan getað fengið allt að 5,4 milljónum meira úthlutað við skiptin og Stjarnan 3,8 milljónum meira.

Rétt er að taka fram að þrotabúið hafði betur í öllum þeim fjórum dómsmálum sem vísað er til í matsbeiðninni og fékk rúmlega 600 milljónir greiddar vegna málanna, en heildar eignir þrotabúsins við skipti þess námu 636 milljónum. Í matsbeiðni félaganna er jafnframt vísað til þess að samþykktar kröfur í EK1923 hafi numið 514 milljónum og því hafi Leiti eignarhaldsfélag jafnvel getað átt kröfu um að fá EK1923 aftur afhent, ef skiptakostnaður hefði verið 76 milljónum lægri. Sveinn Andri sagði þó í samtali við mbl.is þegar stærsta dómsmálið kláraðist að aðeins um 20 milljónir hefðu komið inn í búið ef ekki væri talin með dómsmálin og því ljóst að úr litlu hefði verið að spila nema vegna niðurstöðu þeirra.

Eftir að niðurstaða í Hæstarétti lá fyrir í stærsta málinu og eftir að skiptum þrotabúsins var lokið sagði þáverandi lögmaður Skúla að Sveinn Andri hefði blekkt kröfuhafa með því að fela það að birta nafn þrotabúsins í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Þar með hafi bara kröfuhafar sem Sveinn Andri vildi að myndu mæta komið á fundinn og ekki gert neinar athugasemdir við skiptalokin. Gagnrýndi hann jafnframt háa þóknun Sveins Andra, en það hefur Skúli einnig gert opinberlega.

Í matsbeiðninni er lagt til að matsmaður svari fjórum spurningum, meðal annars hver væri hæfilegur fjöldi tíma fyrir skiptastjóra og undirmanna hans við uppgjör búsins, hvert væri hæfilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu skiptastjóra og hvort einhverjar vinnustundir hafi verið skráðar án þess að vinna væri þar að baki.

Héraðsdómur hafnaði beiðni félaga Skúla, en Landsréttur sneri þeirri ákvörðun við og heimilaði að dómkvaddur yrði matsmaður. Er vísað til þess að félögin þrjú telji sig eiga skaðabótakröfu á hendur Sveini Andra vegna starfa hans sem skiptastjóra vegna þess sem félögin segi óheyrilega háa þóknun sem sé úr taki við það sem eðlilegt megi telja. Telur Landsréttur að ekki verði annað séð en að matsspurningarnar miði að því að renna stoðum undir þá kröfu sem félögin telji sig eiga og þá hafi félögin sýnt að þau eigi nægilega lögvarða hagsmuni af því að matið fari fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK