Verðbólguvindar virðast vera teknir að snúast til hagstæðari áttar að mati Samtaka atvinnulífsins.
Ný mæling Þjóðskrár á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu bendir til þess að fasteignaverð sé að lækka og viðsnúningur sé að eiga sér stað en verðbólgan skýrist að miklu leyti af hækkun íbúðaverðs, að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökunum.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4% í ágúst, sem er mesta lækkun vísitölunnar frá því snemma árs 2019 en fasteignaverð hefur aftur á móti hækkað hratt undanfarna mánuði.
Samtökin telja að almennt skuli varast að lesa of mikið í einstaka mælingar, enda sveiflur töluverðar frá mánuði til mánaðar, en með þeim fyrirvara megi túlka nýjustu mælinguna sem hraðan viðsnúning íbúðaverðs.