Greiða um 200 milljónir úr þrotabúi Milestone

Karl Wernersson og Guðmundur Ólason í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna Milestone-málsins …
Karl Wernersson og Guðmundur Ólason í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna Milestone-málsins á sínum tíma. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Boðað hefur verið til skiptafundar í þrotabúi Milestone ehf. í byrjun næsta mánaðar, en til stendur að greiða út rúmlega 200 milljónir úr búinu. Milestone var eitt af stóru fjárfestingafélögunum fyrir fjármálahrunið, en félagið var úrskurðað gjaldþrota árið 2009. Skiptafundurinn var auglýstur í Lögbirtingablaðinu í dag.

Samþykktar lýstar kröfur í búið nema um 78 milljörðum, en fram kemur að á fundinum verði lagt til að úthluta nú um 0,3% þeirrar fjárhæðar, eða sem nemur rúmlega 200 milljónum.

Árið 2018 voru eigendur Milestone, bræðurnir Karl Emil og Steingrímur Wernerssynir, auk Guðmundar Ólasonar sem var framkvæmdastjóri félagsins, dæmdir í Hæstarétti til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða auk vaxta og verðbóta vegna millifærslna sem gerðar voru á reikning systur bræðranna, Ingunnar Wernersdóttur. Með milli­færsl­un­um létu þeir Milest­one fjár­magna kaup sín á hluta­fé Ing­unn­ar í fé­lag­inu, en hún hafði átt hlut í félaginu ásamt bræðrum sínum.

Áður hafði Hæstiréttur einnig dæmt félagið Aur­láka ehf., sem er í eigu Karls, til að greiða 970 millj­ón­ir vegna söl­unn­ar á lyfja­versl­un­inni Lyfj­um og heilsu sem seld var frá Milest­one til Aur­láka í mars árið 2008. Þá þurfti Karl einnig að greiða þrota­bú Hátt­ar ehf. 47 millj­ón­ir, en Hæstirétt­ur vísaði mál­inu frá í byrj­un mánaðar og stend­ur því dóm­ur héraðsdóms sem hafði dæmt Karl til að greiða upp­hæðina.

Áður höfðu þremenningarnir ásamt tveimur endurskoðendum verið dæmdir í sakamáli sem nefnt var Milestone-málið sem snerist um fyrrnefnd kaup bræðranna á hlutafé Ingunnar. Fyrr á þessu ári féllst endurupptökudómur hins vegar á endurupptöku þess máls fyrir endurskoðendurna og Karl eft­ir að ís­lenska ríkið viður­kenndi að hafa brotið á rétti þeirra til rétt­látr­ar málsmeðferðar.

Skiptafundurinn núna er ekki skiptalokafundur, þ.e. ekki er stefnt að því að loka búinu. Á þrotabú Milestone í kjölfar fyrrnefndra dóma kröfur og er 5,2 milljarða dómurinn þar stærsta málið. Hafa þremenningarnir allir verið úrskurðaðir gjaldþrota, en í tilfelli Guðmundar fengust um 86 milljónir upp í 12 milljarða kröfur.

Í tilfelli Karls eru enn í gangi málaferli þar sem þrotabú hans reynir að fá sölu eigna rift og að komast yfir eignir sem það telur tilheyra búinu. Er þar meðal annars um að ræða sölu Karls á félaginu Toska til sonar síns Jóns Hilmars fyrir eina milljón krónur. Er félagið eignarhaldsfélag utan um lyfjaverslunarkeðjuna Lyf og heilsu. Málflutningur í málinu fór fram fyrr í þessum mánuði og er enn beðið niðurstöðu þess.

Fyrr á þessu ári var jafnframt ráðist í húsleit hjá Karli í tengsl­um við rann­sókn embætt­is héraðssak­sókn­ara á þó nokkr­um til­vik­um frá þrota­búi Karls. Sendi Karl frá sér yfirlýsingu vegna húsleitarinnar þar sem hann talaði um „of­sókn­ir yf­ir­valda“ og sagði að sér virtist „til­gang­ur­inn vera sá að aðstoða þrota­bú mitt vegna dóms­mála sem það er að reka í dóms­kerf­inu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka