Guðrún Aðalsteinsdóttir rekstrarverkfræðingur hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar, en hún hefur störf strax í dag. Guðrún tekur við af Ástu Sigríði Fjeldsted sem var ráðin forstjóri Festi, móðurfélags Krónunnar, fyrr í mánuðinum.
Guðrún hefur starfað hjá Krónunni í tæp tvö ár, nú síðast sem forstöðumaður stafrænnar þróunar og umbótaverkefna, þar á undan sem forstöðumaður innkaupa- og vörustýringar.
Guðrún er rekstrarverkfræðingur með M.Sc. gráðu frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU). Hún starfaði áður sem forstöðumaður hjá Icelandair á rekstrarsviði þar sem hún var ábyrg fyrir m.a. sölu og þjónustu í flugvélum félagsins, vöruþróun, innkaupum, birgðastýringu og framleiðslu því tengdu.
Hún hefur enn fremur alþjóðlega reynslu frá Nýja-Sjálandi, þar sem hún vann í þrjú ár fyrst sem yfirmaður verkefnastofu og seinna sem yfirmaður ráðgjafar á sviði rekstrarumbóta og stefnumótunar í heilbrigðisþjónustu hjá ráðgjafastofunni Te whatu ora health. Þar áður starfaði hún hjá Novo Nordisk Engineering (NNE) í Kaupmannahöfn við verkefnastýringu og áætlanagerð.