Ölgerðin hefur uppfært afkomuspá sína fyrir fjárhagsárið 2022 í kjölfar þess að drög að uppgjöri fyrirtækisins fyrir fyrstu 6 mánuði fjárhagsársins liggja fyrir. Félagið gerir nú ráð fyrir að reksturinn skili hagnaði á bilinu 4,1–4,4 milljarðar króna, en fyrri afkomuspá hafði gert ráð fyrir 3,6–3,9 milljarða króna hagnaði.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að rekja megi breytinguna til tveggja þátta. Annars vegar hafi sala á vörum fyrirtækisins á hótelum og veitingastöðum aukist, ekki síst vegna umtalsverðrar fjölgunar ferðamanna. Hins vegar hafi hlutdeild Ölgerðarinnar í bjórsölu hjá ÁTVR aukist meira en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Þó er áréttað að rekstur félagsins sé árstíðabundinn og sveiflukenndur. Ný afkomuspá sé því háð áhættu- og óvissuþáttum sem geti þýtt að afkoman geti brugðið frá því sem ráð er fyrir gert í þessari spá. Árshlutareikningur fyrir tímabilið 1. mars 2022–31. ágúst 2022 verður birtur 11. október næstkomandi.