Bjargey Anna Guðbrandsdóttir hefur verið skipuð í starf framkvæmdastýru Gleipnis – nýsköpunar og þróunarseturs á Vesturlandi.
Gleipnir er sjálfseignarstofnun sem komið var á fót í maí. Stofnaðilar eru fjölmargir, þar á meðal Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landsvirkjun, Háskóli Íslands, Íslandsstofa, Orkustofnun og Auðna tæknitorg.
Ásthildur Bragadóttir, endurmenntunar- og nýsköpunarstjóri segir að hlutverk Bjargeyjar verði að fara af stað með ný verkefni sem tengjast uppbyggingu setursins þar á meðal á sviði matvælaframleiðslu og landbúnaðar.
„Það er mikil umræða að Ísland þurfi að vera sjálfstætt þegar kemur að fæðuöryggi. Það eru til dæmis gríðarleg tækifæri í matvælaframleiðslu. Fyrirtæki á sviði örþörungaræktar eru að koma inn á markaðinn þar sem er verið að búa til hágæða prótein með nýtingu grænnar orku,“ segir Ásthildur í samtali við mbl.is.
Hún nefnir einnig að breytingar séu í vændum hjá grænmetisbændum. Nokkrir eru komnir með lítilsháttar útflutning og eru vonir bundnar við að enn meira verði hægt að gera í þeim efnum. Þá er verið að skoða hvernig hægt sé að auka líftíma grænmetis.